Nú um helgina mætti A lið 3. flokks kvenna liði Víkings í 8 liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. KA/Þór stelpur gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik og spiluðu á köflum virkilega góðan handbolta en féllu hins vegar niður í tóma steypu á stuttum kafla í fyrri hálfleik. Í stöðunni 16-4 fóru þær að slaka heldur mikið á og gerðu í raun sitt besta til þess að hleypa Víkingsstelpum inn í leikinn. Víkingsstelpur gengu á lagið og minnkuðu muninn í 18-11 og þannig stóð í hálfleik.
Í seinni hálfleik var aldrei spurning um hvort liðið mundi vinna, heldur hversu stór sigurinn yrði. KA/Þór lék við hvern sinn fingur og landaði öruggum tíu marka sigri 31-21.
Það má þó hrósa Víkingsstelpum fyrir það að þær héldu áfram jafnvel þó leikurinn væri tapaður og spiluðu af fullum krafti til leiks loka.
A lið 3. flokks kvenna spilar því gegn HK næsta laugardag í undanúrslitum en sigurvegari þess leiks spilar á sunnudeginum gegn sigurvegaranum úr leik Stjörnunnar og Hauka.
Veturinn hefur gengið nokkuð vel hjá 3. flokki kvenna en þær enduðu mótið í 2. sæti deildarinnar. Liðið er nokkuð breytt frá síðasta ári en maður hefur komið í mannsstað og stelpurnar staðið sig með mikilli prýði. Mótið er þó engan veginn búið og að sjálfsögðu stefnan sett á að vinna þá tvo leiki sem eftir eru í vetur!