3. flokkur KA/Þór endaði í 3. sæti Íslandsmótsins

Stelpurnar í KA/Þór fóru suður um helgina til að keppa í undanúrslitum Íslandsmótsins. Mótherjarnir voru lið Stjörnustelpur sem enduðu í 2. sæti í deildinni en KA/Þór stúlkur enduðu í 3. sæti. Framan af leik var jafnt á öllum tölum en um miðbik fyrri hálfleiks fór allt í baklás hjá norðanstúlkum.

 Ekkert bit var í sóknarleiknum og vörnin hleypti öllu í gegn. Síðustu tvær mínúturnar í hálfleiknum voru KA/Þór dýrkeyptar en Stjarnan skoraði þrjú síðustu mörk hálfleiksins á tveim mínútum og leiddu því með sex mörkum í hálfleik.

Síðari hálfleikur var ákaflega kaflaskiptur, á tímabili virtust norðanstúlkur ætla að koma sér inn í leikinn og náðu að minnka muninn í þrjú mörk en þá fór allt aftur í baklás. Þegar tíu mínútur voru eftir höfðu þær aftur náð að minnka muninn niður í fjögur mörk en nær komust þær ekki og Stjarnan vann fimm marka sigur og þar með sæti í úrslitaleiknum.

Daginn eftir mætti KA/Þór liði Fram í leik um bronsið. Stelpurnar mættu mun ákveðnari þann daginn og gerðu í raun út um leikinn á fyrstu 15 mínútunum með sterkri vörn, góðum hraðaupphlaupum og beittri sókn.

Til að gera langa sögu stutta vann KA/Þór glæstan 12 marka sigur, 32-20 og tryggðu sér þar með bronsið. Auðvelt hefði verið fyrir stelpurnar að falla í þá gryfju að svekkja sig á úrslitum laugardagsins en sýndu þess í stað gríðarlegan karakter, mættu vel stemmdar og klárar í þennan leik og eiga hrós skilið.

Niðurstaða vetrarins er því 3.sætið í deild og úrslitakeppni og mega stelpurnar vel við una. Þær sýndu á köflum í vetur gríðarlega góða spilamennsku og stóðu sig vel í vetur.

Tímabilið er þó ekki búið hjá stelpunum þar sem meistaraflokkurinn mun spila við FH í undanúrslitum í úrslitakeppni 2. deildar, en á þessari stundu er ekki vitað nákvæmlega hvenær hann verður spilaður. Að sjálfsögðu stefna stelpurnar á að fara alla leið í þeirri keppni og koma dollunni til Akureyrar.

Stefán Guðnason