3. flokkur kvenna: Annar sigurinn á nokkrum dögum

Það var skammt á milli leikja hjá stelpunum. Fínt að bíða fram í desember eftir því að spila heimaleik og fá síðan tvo í einni viku.

Fyrir leik var talað um hversu mikilvægt það er að mæta ákveðin til leiks og byrja leikinn af krafti. Það hugarfar skilaði sér þó engan veginn inn á völlinn og andleysið var algert. Varnalega voru þær að berjast en náðu þó aldrei að klára brotin nægilega vel ásamt því að einöld innleysing splundraði vörninni allt of auðveldlega. Fyrir vikið skoruðu FH stúlkur allt of mörg fyrirhafnarlítil mörk.

Í sókninni gekk lítið upp. Árásirnar ómarkvissar og skotin hittu fæst á markið. Í stöðunni 4-10 var tekið leikhlé og leikurinn endurskipulagður. Smám saman þéttist vörnin og náðu heimastúlkur að koma sér betur inn í leikinn en þó vantaði alltaf herslumuninn upp á að skrefið yrði tekið til fulls.

Staðan 9-12 í hálfleik, FH í vil.

Stelpurnar mættu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik staðráðnar í að ná þessum tveimur stigum. Með góðri baráttu í vörninni og nokkrum mikilvægum boltum vörðum frá Lovísu í markinu tókst stelpunum að jafna leikinn og komast yfir þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Líkt og á móti Fram vantaði örlítið upp á að gera út um leikinn en í staðinn nær FH að hanga inn í leiknum allt fram á lokamínútuna. 

Heimastúlkur unnu þó að lokum góðan sigur, 22-20.

Stelpurnar sýndu gríðarlega mikinn karakter í dag þegar þær létu ekki slæma byrjun slá sig út af laginu og komu sterkar til baka.  Lovísa sem hafði átt afleiddan fyrri hálfleik datt í gang á mikilvægu augnabliki og varði nokkra mjög góða bolta og Arna Erlingsdóttir sýndi mátt sin og megin og skoraði heil 16 mörk. Mörg hver upp úr því sem hún gerir best, að lyfta sér upp fyrir utan og hamra á markið.

Stelpurnar eru ekki ennþá komnar í fulla leikæfingu og mörg atriði sem gengu illa í þessum tveimur leikjum má rekja til leikæfingar. Það er þó gríðarlega jákvætt að misheppnuðum sendingum hefur snarfækkað og varnarlega eru þær að skila mjög góðri vinnu. Sóknarlega eiga þær mikið inni og hef ég fulla trú á því að það komi til með að lagast þegar líða fer á tímabilið.

Eins og áður sagði eiga þær hrós skilið fyrir að gefast ekki upp þegar þær voru komnar upp við vegg, í staðinn bitu þær frá sér og sigruðu þennan leik verðskuldað. Þær þurfa þó að átta sig á því að undirbúningur fyrir leik hefst ekki í upphitun. Undirbúningurinn hefst í vikunni fyrir leikinn og stendur yfir allt þar til að dómarinn flautar leikinn á. Það er erfitt að ætla að stilla hausinn á sér þegar í leikinn er komið. Sýndi það sig á móti FH hversu hættulegt það er að mæta illa stemmdur en litlu munaði að illa færi.

Þetta hefur verið viðloðandi við þessar stelpur að mæta til leiks í seinni hálfleik ef þannig má að orði komast. Oft eru þær þá að berjast við að vinna upp forskot mótherjans og tekur það mikla orku.

Nú á næstu vikum þurfa stelpurnar, þjálfarinn og sí-ungir stjórnarmeðlimir að fara yfir undirbúning liðsins og finna það sem hentar liðinu best þannig að þegar dómarinn flautar leikinn á þá séu þær fullkomlega tilbúnar í leikinn. Ef þeim tekst að laga þennan þátt verða þær ill viðráðanlegar í vetur.

Það vantar ekki hæfileikana og metnaðinn í þessar stelpur. Hópurinn sem slíkur er gríðarlega flottur og stelpurnar vantar herslumuninn í að stíga þetta skref frá því að vera bara efnilegar stelpur í handbolta yfir í að vera efnilegar handboltastúlkur.

KA/Þór hefur á að skipa gríðarlega sterkum mannskap sem á eftir að gera góða hluti í vetur, hversu góða er undir þeim sjálfum komið.

Nú tekur við þriggja vikna pása en næsti leikur er gegn Haukastúlkum sem koma í heimsókn hingað til Akureyrar þann 10. janúar.