Stelpurnar í 3. flokk spiluðu 3 leiki um helgina. Tvo í deild og einn í bikar.
Fyrsti leikurinn var við HK í Kaplakrika þar sem Digranes var upptekið. Leikurinn byrjaði þokkalega hjá KA/Þór stelpum og komust þær
fljótt í 4-1 þó var vörnin ákaflega brothætt og var það einungis út af gríðarlega góðri markvörslu hjá
Lovísu að KA/Þór náði þessu forskoti.
Fljótlega fór þó að halla undan fæti og HK stelpur sigldu fram úr.
Vörnin var afskaplega slöpp og sú barátta sem hefur einkennt KA/Þór vörnina í síðustu leikjum var hvergi sjáanleg. Sóknarlega
voru stelpurnar að gera ágætis hluti en áttu þó helling inni. Stelpurnar hættu samt aldrei og náðu að lokum að komast yfir og unnu
góðan sigur 23-24.
HK er með mikla breidd og nokkuð vel spilandi lið. Stelpurnar okkar gerðu þó nákvæmlega það sem þurfti og kláruðu leikinn.
María Steingrímsdóttir sem tók fram skónna á nýju fyrir þetta keppnistímabil kom gríðarlega sterk inn í sóknina
og fiskaði tvö víti og tvo leikmenn HK útaf, enda erfitt að stoppa hana þegar hún fer af stað.
Hörkuverðlaunin í þessum leik fá Unnur Ómarsdóttir og Arna Erlingsdóttir. Unnur stóð af sér gríðarlega þunga
árás á tennurnar sínar og hélt áfram þrátt fyrir að líta út eins og kona sem er nýbúin að setja botox
í varirnar á sér og Arna kveinkaði sér ekki þrátt fyrir að fá þungt högg á andlitið þannig að fossblæddi
og var hún komin inn á eftir rúmar tvær mínútur.
Haukar - KA/Þór
Næsti leikur var við Hauka á Ásvöllum. Stelpurnar mættu vel stemmdar til leiks og tóku fljótlega
forustuna en Haukastelpur voru þó aldrei langt undan. Arna Erlingsdóttir fór mikinn á þessum kafla og virtist geta skorað þegar hún vildi,
þó stækkaði treyjan hjá henni eftir hverja árás. Þá brugðu Haukar á það ráð að klippa hana út
úr leiknum.
Þá var leynivopnið María Steingrímsdóttir sett inn á og með hana og Unni Ómarsdóttur fyrir framan sig á þessu stóru
svæði átti Haukavörnin litla möguleika. Hvað eftir annað prjónuðu þær sig í gegnum vörn Hauka. Hinum megin var Arna Valgerður
öflug í vörninni enda úthvíld eftir hverja sókn. Við það jókst munurinn og KA/Þór komið í góða
stöðu. Á þessum kafla fékk María Steingrímsdóttir fimm víti eftir að hafa kastað sér í gegnum litlar glufur á
vörn Hauka stúlkna.
Lokatölur voru 21-24 fyrir KA/Þór og góður sigur á erfiðum útvelli staðreynd.
Fram - KA/Þór
Síðasti leikurinn var við Fram í Safamýrinni í 8 liða úrslitum bikars.
Fyrirfram var vitað að ekkert nema toppleikur mundi skila þeim sigri. Stelpurnar byrjuðu virkilega vel, barátta og leikgleði skein úr þeim. Arna hélt
uppteknum hætti og skoraði þegar hún vildi eða bjó til færi fyrir Köru Árnadóttur í horninu. Hinum megin voru „systurnar" Unnur
og Emma virkilega ógnandi og létu vörn Fram hafa fyrir hlutunum. Þó vildi svo til að á fyrstu 15 mínútunum klikkuðu stelpurnar á
fjórum dauðafærum og tveimur vítum. Það virtist draga úr þeim allan kjark og á síðustu tíu mínútum fyrri
hálfleiks var aðeins vinstri vængurinn með lífsmarki og Fram náði sex marka forustu fyrir leikhlé.
Í seinni hálfleik hélt vesenið áfram og var Fram vörnin farin að pakka sér saman á vinstri vænginn þannig að þær
fengu úr litlu að moða. Unnur fór þó í nokkrar árásir og fór í gegn en afbrennslurnar í fyrri hálfleik sátu
greinilega í henni. Fram komst mest í ellefu marka forskot og ekkert gekk upp hjá KA/Þór. Stelpurnar náðu þó að minnka muninn í
fjögur mörk en komust þó ekki lengra og endaði leikurinn með 7 marka sigri Fram, 30-23.
Arna Erlingsdóttir og Kara Árnadóttir spiluðu vel í leiknum en hinar áttu þó töluvert inni. Varnarlega átti Emma Sardardóttir
góðan leik þrátt fyrir að leika á móti erfiðum andstæðingi.
Þar með er bikardraumurinn úti hjá 3. flokk kvenna þennan veturinn. Þær þurfa því að fara að einbeita sér að
deildinni en þær sitja í 2. sæti um þessar mundir, tveimur stigum á eftir toppliði Fylkis.
Heilt yfir var helgin nokkuð góð. Fjögur stig í hús í deild í leikjum sem hefðu getað farið illa. Stelpurnar spiluðu á
köflum virkilega vel og er einstaklega gaman að sjá þá hörku sem er farið að einkenna þær.
Þrátt fyrir að leikurinn á móti Fram væri síður en svo góður voru nokkrir punktar jákvæðir og fer þessi leikur bara
í reynslubankann.
Þær fá núna tæplega tveggja vikna pásu en næsta suðurferð er eftir tæpar tvær vikur. Þá mun meistaraflokkurinn og 3.
flokkurinn spila sitthvora tvo leikina.