Stelpurnar í 3. flokk mættu Fylki síðastliðinn sunnudag. Fyrir leikinn voru Fylkisstúlkur taplausar á Íslandsmótinu og sátu þar
af leiðandi í efsta sæti deildarinnar.
KA stelpur byrjuðu leikinn af miklum krafti og einbeitingin skein úr augunum á þeim. Í vörninni börðust þær eins og ljón og
sóknarlega voru þær ákveðnar og umfram allt skynsamar. Einbeiting og baráttugleði KA/ Þórs stúlkna virtist slá Fylkisstelpur alveg
út af laginu. Í hálfleik var staðan 18-13 fyrir KA/Þór og hefðu þær jafnvel getað leitt með fleiri mörkum, slíkir voru
yfirburðirnir.
Seinni hálfleikur byrjaði vel. KA/Þór jók forskot sitt og allt leit út fyrir öruggan og þægilegan sigur heimastúlkna. Þá
var eins og allt færi í baklás hjá heimastelpum. Stelpurnar urðu ragari í sóknarleiknum og gerðu sig sekar um mistök í varnarleiknum.
Smám saman vann Fylkir sig aftur inn í leikinn og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þá kom kippur í leik KA/Þórs stúlkna og
þær byrjuðu að spila aftur af fullum krafti. Lokamínúturnar voru æsispennandi og mátti litlu muna að illa færi. Unnur
Ómarsdóttir skoraði glæsilegt mark af gólfi þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum og reyndist það vera
síðasta mark KA/Þórs í leiknum. Fylkir skoraði í næstu sókn á eftir og fékk Emma Sardardóttir tvær
mínútur fyrir brot í vörninni. 5 á móti 6 fóru KA/ þór stelpur upp í sókn og náðu að halda boltanum
nægilega lengi þar til að sigurinn var í höfn. Sanngjarn heimasigur 31-30.
Stelpurnar sýndu flottan karakter í þessum leik að klára hann þrátt fyrir að stressstigið hafi verið farið að hækka vel undir
lokin.
Þegar Arna var klippt út steig Emma Sardardóttir upp og skoraði góð mörk ásamt því að Kara Árnadóttir fór á
kostum í vinstra horninu.
Markaskorunin var nokkuð dreifð en þrjár markahæstu voru Kara Árnadóttir og Arna Erlingsdóttir sem skoruðu 9 mörk hvor og Emma
Sardardóttir sem skoraði 7 mörk.
Stelpurnar fá þó ekki langt frí þar sem þær fara til Reykjavíkur um helgina til þess að spila tvo leiki í deild og einn í 8
liða úrslitum bikars.