3. flokkur kvenna: Sigur gegn Fram

Stelpurnar í KA/Þór mættu Fram síðastliðin föstudag. Fyrir leikinn voru norðanstúlkur án stiga eftir töp gegn Fylki og Stjörnunni en leikurinn við Fram var jafnframt fyrsti heimaleikur 3. flokks kvenna þetta tímabilið. Síðast þegar þessi tvö lið mættust í vetur unnu Fram stúlkur auðveldan sigur, 25-18.

Fyrri hálfleikur var heldur daufur hjá heimastúlkum en barátta þeirra í vörninni hélt þeim þó inn í leiknum. Arna Erlingsdóttir var tekin úr umferð allan fyrri hálfleik og þrátt fyrir að vörn Fram hafi opnast hvað eftir annað mistókst okkar stúlkum að færa sér það í nyt.

Staðan í hálfleik var 12-12 og var það einungis fyrir eigin aulaskap að KA/Þór var ekki vel yfir í hálfleik.

Í seinni hálfleik mættu þær mun ákveðnari til leiks og ætluðu sér greinilega sigur. Slegist var um hvern einasta millimetra í vörninni en sóknin var stirð en gekk þó. Maður beið alltaf eftir því að KA/Þór tæki öll völdin í sínar hendur á vellinum og gerði út um leikinn mun fyrr en það gerðist þó ekki.

Eftir mikinn barning náðu KA/Þór stúlkur að landa mikilvægum tveggja marka sigri, 24-22.

Baráttan í vörninni var til stakrar prýði og eiga stelpurnar mikið lof skilið. Sóknarlega voru þær að gera of mikið af mistökum sem þó munu eflaust rúnast af þeim þegar þær verða búnar að spila fleiri leiki.

Í vörninni stóðu stelpurnar vaktina gríðarlega vel og engin leið að taka einhverja eina út. Sóknarlega var Unnur að gera fína hluti  á köflum en má þó vera miklu ákveðnari sjálf. Oft þegar hún var komin í gegn var hugsunin hennar ennþá að spila uppi samherja sína. Leikmaður sem býr yfir slíkri fótasnerpu á að njóta þess að skilja mótherja sína eftir með spurningamerki yfir höfðinu. Þegar Fram tók bæði Unni og Örnu úr umferð steig Arndís Heimisdóttir upp þegar á reyndi og gerði nokkur dýrmæt mörk.

Þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið fallegasti sigur stelpnanna var þetta þó engu að síður sigur gegn feiknarsterku liði. Þrátt fyrir hnökra á sóknarleiknum sýndu þær á köflum hvers þær eru megnugar og verður spennandi að fylgjast með þeim vaxa í þeim efnum.


Unnur gerði fína hluti í sókninni