Stelpurnar í A liði 3. flokks kvenna mættu Haukum á sunnudagsmorgun og má segja að heimastúlkur hafi ekki verið almennilega vaknaðar þegar leikurinn byrjaði. Haukar náðu strax forskoti á meðan KA/Þór stúlkur spiluðu langt undir getu framan af. Með ágætum leikkafla tókst heimastúlkum þó að jafna leikinn fyrir hlé, staðan 10-10 í hálfleik.
Síðari hálfleikur var í raun mjög keimlíkur þeim fyrri til að byrja með. Mikið um hnoð og átti liðið frekar erfitt með að stilla upp í almennilega sókn. Varnarleikur liðsins og markvarsla hélt þó liðinu inn í leiknum og með mikilli baráttu tóku KA/Þór stúlkur forustuna í
18-14 þegar um tíu mínútur lifðu af leiknum. Þá hrekkur allt aftur í baklás og Haukastúlkur skora sex mörk í röð og staðan skyndilega orðin 18-20 fyrir Haukum og aðeins rétt tæpar þrjár mínútur eftir af leiknum. Þá loksins hrukku heimastúlkur í gang og jöfnuðu leikinn 20-20 unnu boltann síðan í vörninni og komust yfir. Haukar freistuðu þess að jafna en Lovísa varði vel í markinu og Steinþóra innsiglaði sigurinn 22-20 með góðu marki úr hægra horninu.
Stelpurnar spiluðu ekki sinn besta leik þennan daginn en sýndu góðan karakter að vinna leikinn með sterkri spilamennsku síðustu þrjár mínúturnar. Margar léku undir getu en stigu þó upp þegar á reyndi og stigin tvö alveg jafn góð þó að um vinnusigur hafi verið að ræða.
Aldís Mánadóttir og Freyja Kjartansdóttir komu með mikinn hraða inn í sóknarleikinn hjá KA/Þór þegar á þurfti og Lovísa varði vel heilt yfir.
Um næstu helgi kemur lið Stjörnunnar í heimsókn og er nokkuð ljóst að stelpurnar hreinlega verða að mæta klárar og rétt
stemmdar í þann leik þar sem Stjarnan hefur á að skipa gríðarlega sterkum mannskap. KA/Þór stelpur eru ósigraðar á heimavelli
og er að sjálfsögðu stefnan sett á að svo verði áfram að viku liðinni.
Stefán Guðnason