Strax frá byrjun tóku Stjörnustelpur frumkvæðið og héldu því allt til loka leiks. Staðan í hálfleik var 13-20 fyrir Stjörnuna og lokatölur 25-36.
Eins og sést á úrslitum var lítið um tilþrif i vörninni. Stelpurnar virkuðu oft á tíðum hálf áhugalausar og nánast horfðu á Stjörnustelpur labba í gegnum vörnina aftur og aftur. Skytturnar hjá Stjörnunni fengu þann frið sem þær vildu til að athafna sig og línumaðurinn skottaðist fyrir aftan dapra vörn norðanstúlkna eins og hún vildi. Þá skipti engu í hverslags varnarafbrigði var skipt, alltaf léku þær naut og nautabana við Stjörnustelpur.
Sóknarlega voru nokkrir hlutir að ganga ágætlega. Stelpurnar voru duglegar að finna Sunnefu inn á línu, en þó helst til of duglegar þar sem hún átti það til að vera umkringd óvinum þegar reynt var að koma boltanum í hennar hendur.
Einstaklingsframtak og hnoð hefur sjaldan reynst vel í handbolta og uppskáru þær svipað og þær sáðu hvað það varðar.
Síðustu tíu mínuturnar spiluðu þær þó loksins þá vörn sem þær eiga að vera þekktar fyrir. Stemming myndaðist í öllum pirringnum og svekkelsinu og þær fóru að taka hraustlega á þeim og tókst þeim á einhvern ótrulegan hátt að gera Stjörnustelpurnar alveg brjálaðar úr pirring þrátt fyrir að þær væru með nokkuð öruggan sigur í höndunum.
Nú er sú staða komin upp að stelpurnar geta gert annað af tveimur hlutum. Þær geta farið að svekkja sig yfir þessum leik og smellt sér í fýlu og látið hann eyðileggja næstu leiki eða stefnt á það að fara að spila heilar 60 mínútur af þessari ákveðni sem þær sýndu síðustu tíu mínúturnar.
Í leikjunum hingað til hefur það dugað þeim til naums sigurs að klára leikina með góðum leikköflum en þegar þær mæta gegn einu af sterkari liðum deildarinnar er ekki hægt að treysta á að næsta við hliðina á þér sjái um skítverkin og að þú getir verið í pásu. Hver ein og einasta þarf að vera virk, láta i sér heyra, gefa af sér og vera tilbúin að gefa allt í leikinn. Það er eina leiðin til árangurs í handbolta.
Næst eiga stelpurnar útileik gegn sterku liði HK og þurfa stelpurnar að sýna mun meiri vilja og áhuga ætli þær sér stig úr þeim leik.