3. flokkur kvenna og meistaraflokkur á sigurbraut

Stelpurnar í 3. flokk kvenna áttu frekar strembna helgi. Þrír leikir við ÍBV voru á dagskránni. Tveir í 3. flokk og einn í meistaraflokk. Þar sem engar af eldri stelpunum fóru með til Reykjavíkur þessa helgina lá þetta allt á herðum tíu leikmanna.

Fyrsti leikurinn var á laugardaginn. Stelpurnar byrjuðu leikinn ágætlega og náðu fljótt þægilegri forustu. ÍBV stelpur spiluðu harðan leik og það hentaði okkar stelpum ágætlega þar sem það kveikti ennfrekar í þeim. Í hálfleik var staðan 19-10 fyrir KA/Þór. Í seinni hálfleik va byrjað að skipta útileikmönnunum nokkuð þétt og það virtist ekki skipta neinu máli upp á leik KA/Þórs. Lokatölur 33-24 fyrir KA/Þór. Markaskorunin var nokkuð dreifð í þessum leik en allar komust þær á blað. Markahæstar voru Kara Árnadóttir og Unnur Ómarsdóttir með 7 mörk hvor og Arna Erlingsdóttir 6.

Sunnudagurinn var tekinn snemma en fyrri leikurinn var klukkan 09:00. Stelpurnar mættu ákveðnar til leiks og tóku strax öll völd á vellinum. Eftir rúmlega 20 mínútna leik var staðan 13-2 fyrir KA/Þór og staðan í hálfleik var 16-5. Vörnin í fyrri hálfleik var virkilega góð og Lovísa sem hafði daginn áður fengið tvo bolta í andlitið fékk sinn þriðja andlitssmell í upphafi leiks og var eins einbeitt og hún gat orðið fyrir aftan þessa sterku vörn.

Seinni hálfleikur var ekkert ósvipaður. Vörnin nokkuð sterk og sóknin beitt. Hver ein og einasta sótti á af krafti og bjó til fyrir stúlkuna við hliðina á sér. Arna Erlingsdóttir var tekin úr umferð allan síðari hálfleikinn og við það opnaðist fyrir hinar í liðinu. Líkt og fyrri daginn var markaskorunin virkilega dreifð. Arndís Heimisdóttir og María Steingrímsdóttir voru markahæstar með 5 mörk hvor, síðan komu Iðunn Birgisdóttir, Unnur Ómarsdóttir og Arna Erlingsdóttir með 4 mörk.

Strax eftir 3. flokks leikinn spiluðu stelpurnar við meistaraflokkinn hjá ÍBV. Eins og áður sagði voru engar af eldri stelpunum með í för þannig að 3. flokkurinn spilaði þann leik einnig. Framan af voru stelpurnar hálf andlausar og fátt um fína drætti. Vörnin var slök en sóknarlega voru stelpurnar að gera þokkalega hluti. Í hálfleik var staðan 17-18 fyrir ÍBV. Í síðari hálfleik var Arna Erlingsdóttir tekin úr umferð og gat því verið ferskari í vörninni. Vörnin þéttist smám saman en bitið fór úr sóknarleiknum. Þegar kortér var eftir af leiknum spýttu KA/Þór stelpur í lófanna og silgdu fram úr. Sigurviljinn á þessum kafla yfirvann þreytuna og ÍBV stúlkur áttu fá svör. Lokatölur 37-33 fyrir KA/Þór.

Markahæst var Kara Árnadóttir með 10 mörk en á eftir henni kom Arna Erlingsdóttir með 7 og Unnur með 6 mörk.

Stelpurnar eiga heiður skilinn fyrir spilamennskuna um helgina. Markvarslan var góð og vörnin sterk. Sóknarlega þorðu allar að taka af skarið og stelpurnar voru einbeittar allan tímann. Þær þurfa núna að læra inn á sjálfa sig til þess að koma einbeittar í hvern einasta leik og halda þeirri einbeitingu allt til leiks loka.

3. flokkur á leik um næstu helgi gegn Gróttu í KA heimilinu og mun sigur í þeim leik setja þær í góða stöðu í deildinni. Þær eru nú þegar búnar að tryggja sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni sem er virkilega jákvætt en öll liðin í hinum þremur sætunum eiga eftir að spila innbyrðis þannig að ekki er alveg útséð í hvaða sæti stelpurnar lenda í deildinni.

Meistaraflokkurinn er í góðri stöðu fyrir úrslitakeppnina en með sigri á Víking2 um næstu helgi geta stelpurnar tryggt sér 2. sætið í deildinni.

Stefán Guðnason