4. flokkur kvenna spilaði sína fyrstu leiki á Íslandsmótinu um helgina

Á föstudagskvöldinu spiluðu stelpurnar gegn Stjörnunni. A liðið hóf leik og byrjuðu nokkuð vel. Staðan í hálfleik 6-9 fyrir KA/Þór. Þá var eins og þeim bryggðist kjarkur og Stjörnustúlkur gengu á lagið og náðu að jafna og komast yfir. Liðin skiptust á að hafa forskot en að lokum höfðu Stjörnustúlkur betur og náðu að knýja fram eins marks sigur á síðustu sekúndum leiksins. Mikið svekkelsi en stelpurnar geta dregið þann lærdóm af leiknum að ef þær bakka niður og ætla að fara að halda forskotinu þá hleypa þær andstæðingunum betur inn í leikinn. Það er því mikilvægt að slaka aldrei á, sama hver staðan er.


A liðið spilaði síðan gegn Fjölni á laugardeginum. Stelpurnar spiluðu nokkuð góða vörn og fengu sæg af hraðaupphlaupum í kjölfarið. Eitthvað gekk þó illa að nýta þessi hraðaupphlaup og mikið um klaufamistök, sérstaklega í fyrri hálfleik. Seinni hálfleikurinn var þó mun betri og tóku stelpurnar öll völd á vellinum og náðu í kjölfarið að stinga Fjölnisstelpur af um miðbik síðari hálfleiks. Niðurstaðan nokkuð sanngjarn 7 marka sigur KA/Þórs.

B liðið spilaði einnig á föstudaginn gegn Stjörnunni. Þar sem hópurinn hjá 4. flokk kvenna er ekkert sérstaklega stór var Auður Brynja Sölvadóttir fengin til að spila með B liðinu á föstudeginum en hún lagði skónna á hilluna síðastliðið vor til að geta einbeitt sér að skíðunum. Þar að auki var Aldís Höskuldsdóttir, leikmaður B liðsins lánuð upp í A liðið til þess að hafa skiptimann í þeim leik til að dreifa álaginu. 
Þrátt fyrir það spiluðu stelpurnar virkilega vel gegn Stjörnunni og lánsmaðurinn Auður Brynja fór mikinn í sókninni. Stelpurnar lönduðu að lokum glæsilegum átta marka sigri í mýrinni. Þó er ekki alveg útséð með það hvernig þessi leikur verður skráður inn í deildina þar sem KA/þór notaði vissulega ólöglegan leikmann í B liðs leiknum. Þrátt fyrir að umræddur leikmaður hafi ekki spilað stærra hlutverk í A liðinu heldur en raun bar vitni eru reglur HSI á þá leið að slíkt athæfi er hægt að kæra. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að B liðið spilaði mjög vel í þessum leik og geta borið höfuðið hátt. 

Á laugardeginum spiluðu stelpurnar gegn Fram í Safamýrinni. Leikurinn fór rólega af stað og voru stelpurnar heldur ragar til að byrja með. Þegar það kviknaði þó á þeim og þær áttuðu sig á því að þær gætu þetta alveg fóru þær að sækja á markið af meiri krafti og opna fyrir hvor aðra. Vörnin var sterk og markvarslan góð. Þannig lögðu þær grunninn að góðum fjögurra marka sigri gegn erfiðu liði.

Síðasti leikur helgarinnar var að lokum gegn KR í Frostaskjólinu. KR hafði náð nokkuð góðum úrslitum í deildinni og það truflaði stelpurnar nokkuð mikið. 
Fyrir leik kvörtuðu stelpurnar sáran yfir því að hafa engan skiptimann og þær ættu enga möguleika á því að geta neitt í leiknum enda var þessi veik, þessi var með blöðru þarna og þessi hafði Ó Ó á olnboganum.

Þessu trúðu þær í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir að vera að spila á 50% getu meiri hluta fyrri hálfleiks hafði KR aðeins eins marks forskot í hálfleik. Í hálfleik áttuðu stelpurnar sig á því að þær væru nú kannski eins lélegar og þær vildu meina og fóru að spila af meiri kraft og einbeitingu. Hættu að hugsa í afsökunum og fóru að spila handbolta. Fyrir vikið sigu þær fram úr og unnu að lokum mjög verðskuldaðan tveggja marka sigur gegn erfiðum andstæðingum. Vörnin í leiknum var frábær og markvarslan sömuleiðis. Heilt yfir var síðari hálfleikurinn sá hornsteinn sem þær eiga að leggja sinn handboltaferil út frá. Þær slógust fyrir hvor aðra og lögðu sig allar í verkefnið. Það er ekki hægt að biðja um meira.

Stelpurnar eru að sjálfsögðu nokkuð stirðar svona í upphafi móts. Þær hafa lítið sem ekkert spilað gegn öðrum liðum í upphafi móts á meðan mótherjar þeirra eru búnir að spila innbyrðis á Reykjavíkursvæðinu all oft síðustu vikur. 
Liðin eiga eftir að slípast saman en þegar þær náðu að koma sér á skrið í leikjum helgarinnar voru þær að gera mjög flotta hluti og geta borið höfuðið hátt.