Stelpurnar í 4. flokk kvenna spiluðu á niðurröðunarmóti Íslandsmótsins nú um helgina.
Stelpurnar spiluðu þrjá leiki og töpuðust tveir af þeim en einn leikur vannst.
Á föstudag spiluðu stelpurnar við lið Fram og fór hann 14-12 fyrir Fram. KA/Þór byrjaði ákaflega illa og komust Fram stelpur í
þægilegt forskot. Í síðari hálfleik var allt annað upp á teningnum og minnkuðu KA/Þór stelpur muninn jafnt og þétt og
fengu nokkur tækifæri til að jafna leikinn en það gekk ekki upp og eins og áður sagði vann Fram með tveimur mörkum.
Stelpurnar mættu heimastúlkum í ÍR daginn eftir og til þess að eiga möguleika á því að spila í 1. deild þurftu
stelpurnar að vinna þann leik. KA/Þór tók fljótt yfirhöndina í leiknum og hélt henni allt þar til að fimm mínútur voru
eftir af leiknum, þá komst ÍR yfir og hélt þeirri forustu til loka leiks, KA/Þór fékk þó tækifæri til að jafna
leikinn í lokin en inn vildi boltinn ekki og eins marks tap staðreynd.
Síðasti leikurinn var gegn Stjörnunni og vannst sá leikur nokkuð auðveldlega, 11-5. Vörnin sem spiluð var í þeim leik verður seint talin
rétt en stelpurnar bættu upp fyrir hver einustu mistök með mikilli baráttu og uppskáru því góðan sigur.
Sóknarlega og varnarlega eiga stelpurnar mikið inni frá helginni. Það sem mun vera þeirra helsta vopn í vetur, hraðaupphlaupin, komust ekki í gang
fyrr en í síðasta leiknum og það gerði þeim erfitt fyrir.
Niðurstaða helgarinnar er því sú að stelpurnar í A liði spila í 2. deild í vetur þrátt fyrir að vera grátlega
nálægt því að komast upp í 1. deild. Það er þó enginn heimsendir, liðið er að miklu leiti skipað leikmönnum á
yngra ári og ef haldið er rétt á spöðunum geta þær nýtt sér þennan vetur til að taka út miklar framfarir.
Kv. Þjálfarar