4. flokkur kvenna spilaði á laugardeginum gegn toppliði 1. deildar í bikarkeppninni. KA/Þór spilar í 2. deild og hafa sýnt það í fyrstu leikjum vetrarins að þær eru til alls líklegar. Fylkir trónir á toppi 1. deildar taplausar og því ljóst að um verðugan andstæðing var að ræða.
KA/Þór byrjaði leikinn af miklum krafti og náði fljótt yfirhöndinni. Fylkisstelpum virtist hálf brugðið og
KA/Þór virtist ætla að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. Þá var eins og þeim brygðist kjarkurinn og Fylkisstelpur gengu á
lagið. Síðustu mínúturnar í seinni hálfleik voru algjörlega í eigu Fylkis og fóru verðskuldað inn í hálfleikinn
með tveggja marka forustu.
KA/Þór byrjaði seinni hálfleikinn virkilega vel, vörn og markvarsla til fyrirmyndar en kjarkinn vantaði að hluta sóknarlega. Þrátt fyrir það náðu þær yfirhöndinni og skiptust liðin á að skora og leikurinn í járnum. Þegar ein mínúta var eftir af leiknum var staðan 15-15 og Fylkir með boltann. KA/Þór spilaði gríðarlega góða vörn og vann boltann og fóru upp. Tekið var leikhlé og stillt upp í leikkerfi sem því miður gekk ekki upp og lokatölur því 15-15 og þá þurfti að grípa til framlengingar.
Fylkisstelpur spiluðu mjög vel í framlengingunni og áttu heimastúlkur því miður of lítið eftir á tanknum þessar tíu mínútur. Lokatölur 16-19 fyrir Fylki í hörkuleik sem hæglega hefði getað fallið með heimastúlkum.
Þrátt fyrir að úrslitin séu auðvitað gífurlega svekkjandi fyrir stelpurnar geta þær þó borið höfuðið hátt eftir leikinn. Þær voru að spila gegn einu besta liði landsins og voru sáróheppnar að ná ekki sigri. Þær gáfu sig alla í verkefnið og ekki hægt að biðja um meira en það.
Eins og áður sagði var vörnin virkilega góð í gegnum leikinn og markvarslan frábær. Sóknarlega voru stelpurnar helst til ragar á köflum en léku þó heilt yfir ágætlega. Laufey Lára Höskuldsdóttir fór mikinn í leiknum bæði í vörn og sókn og dró vagninn í gegnum leikinn með miklum sóma.
Um næstu helgi spila bæði lið KA/Þórs gegn Stjörnunni hér á heimavelli þannig að þær þurfa að setja þennan leik aftur fyrir sig og einbeita sér nú að deildinni.