
Stelpurnar í A liði fóru suður í gær til að keppa við HK í 8 liða úrslitum.
Fyrirfram var vitað að leikurinn yrði erfiður. KA stelpurnar hafa leikið í 2. deildinni í vetur og staðið sig þar með sóma
þrátt fyrir stöku mótlæti. HK hefur á að skipa gríðarlega breiðum hóp af sterkum handboltastelpum og eru núverandi deildar- og
bikarmeistarar 4. flokks kvenna. Það sem þó gerði stöðuna enn erfiðari fyrir stelpurnar var að þetta var fjórði leikurinn
þeirra á aðeins sex dögum.
Leikurinn byrjaði rólega hjá báðum liðum. KA stelpurnar virkuðu þungar og þreyttar og áttu í mesta basli með framliggjandi vörn
HK. Hornin voru klippt út og aðrir útispilarar KA langt frá sínu besta. 3-2-1 vörnin virkaði á köflum en þreyttar lappir gera
lítið gagn í þeiri vörn og náðu HK fimm marka forustu. Því var breytt um sókn og vörn, farið í 4-2 í sókninni
og 5 + 1 í vörninni og miðjumaður HK nánast tekin úr umferð. Við það komust KA stelpur aftur inn í leikinn og minnkuðu muninn í
eitt mark þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik. HK skoraði þó síðasta mark hálfleiksins og staðan 12-10 HK í vil í
hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði illa og komust HK í 14-10, KA stelpur spýttu þá í lófana og
minnkuðu muninn í 15-14 og fengu tækifæri til að jafna leikinn. Inn vildi boltinn þó ekki og HK komst í 16-14. Þá kom
ágætis rispa hjá KA og þegar fimm mínútu voru eftir var staðan 18-17 fyrir HK og KA með boltann. Síðustu fimm mínúturnar voru
ákaflega vondar af hálfu KA stelpna og missa þær leikinn frá sér á þeim kafla, þreyta og tæknifeilar svo sem dripl og sendingar
í fót ljúka þessum leik.
Þrátt fyrir að gæði handboltans hafi ekki verið há heilt yfir fóru stelpurnar áfram á seiglunni og þrjóskunni. Algjörlega
uppgefnar þar sem lá við uppköstum hjá sumum héldu þær þó áfram og gáfust ekki upp fyrr en öll von var úti.
Það er hugarfar sem getur sigrað leiki á góðum degi, þó svo það hafi ekki tekist þennan daginn. Lokatölur 25-19 HK í vil gefa
alls ekki rétta mynd af leiknum sem var í raun hörkuleikur í alla staði, en HK skorar fjögur síðustu mörk sín á síðustu
þremur mínútunum.

Það er skrítið að hugsa til þess að maður sitji hér heima hundsvekktur yfir því
að hafa tapað þessum leik. HK stelpur eru deildar- og bikarmeistarar og í byrjun árs á niðurröðunarmótinu rúlluðu þær
yfir KA stelpur sama hvað undirritaður laug til um í pistlinum frá þeirri ferð. Á þeim tíma var HK tveimur til þremur klössum fyrir ofan
KA stelpurnar og aðeins ótrúleg seigla í bland við heppni gerðu það að verkum að það tap var ekki stærra.
Í klefanum fyrir leikinn sagði ég við þær að ég væri tilbúinn í að fullyrða það að þær væru
búnar að leggja þrisvar sinnum meira á sig heldur en jafnaldrar þeirra í öðrum liðum. Ég vil meina að það hafi sannast í
leiknum í dag. KA stelpurnar voru alls ekki lakari í handbolta heldur en HK, bikar- og deildarmeistarar 4. flokks kvenna.
Í Kópavoginum eru mjög færir þjálfarar að verki og virkilega flinkar handboltastelpur að koma upp, það verður aldrei af þeim
tekið og er ég alls ekki að gera lítið úr þeirra árangri.
Sú staðreynd að KA átti allan möguleika á því að leggja þetta feiknasterka HK lið að velli þrátt fyrir að þetta
væri fjórði leikurinn þeirra á sex dögum, sýnir hversu mikið þær hafa lagt á sig í vetur og hversu mikið þær
hafa vaxið sem leikmenn.
Sigríður fór á kostum í markinu og átti hverja gæðavörsluna á fætur annari. Maður á eiginlega bágt með að
trúa því að þessi stelpa sé ekki með sæti í U-16 ára landsliði Íslands. Það er engin tilviljun að fjöldi
þjálfara í öðrum liðum hefur spurt út í það af hverju hún sé ekki í landsliðinu, ég persónulega hef
ekkert svar við því.
Steinþóra Heimisdóttir hefur tekið gríðarlegum framförum í vetur og í dag skoraði hún að vild. Þrátt fyrir að
vera geysiöflugur leikmaður í byrjun vetrar gat hún bara tekið eina leið í átt að markinu og lét þar við sitja. Fannst það
fínt. Gabbhreyfingar sem henni var meinilla við að taka framan af vetri sjást núna oft í hverjum leik og þegar á reynir tekur hún af
skarið, en það var einmitt meginn höfuðverkur þessa liðs til að byrja með hvað þær voru allar hlédrægar og vildu sem minnsta
ábyrgð taka.

Það má þó ekki taka það af hinum stelpunum að þær stóðu sig allar
geysilega vel miðað við aðstæður. Iðunn nýtti að venju færin sín úr horninu listarlega vel, Sunna kom sterk inn af bekknum, Begga
sýndi norðlenska hreysti í vörninni, Sunnefa olli miklum usla á línunni, Halldóra setti góð mörk og bjó til mikið fyrir
liðsfélagana að venju, Aldís sigraði sjálfa sig með góðri innkomu síðasta kortérið, Kolla barðist eins og ljón
bæði í vörn og sókn allan leikinn og uppskar þetta fína glóðurauga fyrir vikið þrátt fyrir að Hanna „ninja” Maja
hafi ekki verið valdurinn að glóðurauganu að þessu sinni. Það kom eftir bylmings hægri krók varnarmanns HK.
Það væri hægt að skrifa sér pistil um framfarir og kosti hverrar einustu stelpu en ég þykist vita að ég verði bannaður á KA
síðunni ef ég afhendi eitt stykki B.A. ritgerð til síðustjóra.
Því læt ég eftirfarandi rullu nægja.

Þetta eru 14 og 15 ára stelpur sem eru á fullu í félagslífinu, myspace og í
undirbúningi fyrir samræmdu prófin. Samt mæta þær á hverja einustu æfingu og gefa allt sem þær eiga í hana. Það
hugarfar sem þær hafa sýnt í vetur er til mikillar fyrirmyndar og eiga þær allan heiður skilinn. Það er ekki sjálfgefið að
þjálfari fái aðgang að slíkum flokki og ekki skemmir fyrir að mórallinn er gríðarlega góður í flokknum og eru þetta
allt virkilega skemmtilegar stelpur.
Veturinn í heild hefur verið vonum framar og meiga foreldrar sem og stúlkurnar sjálfar vera virkilega stolt af árangrinum.
Í A liðinu eru fjórar stelpur af tíu á yngra ári og þrjár til fjórar hafa byrjað flesta leikina. B liðið í þessum
flokk hefur vaxið gríðarlega í vetur og er sömu sögu að segja um þær hvað metnað og dugnað varðar. Hins vegar er B liðið
ennþá að og eiga leik við Gróttu2 í 8 liða úrslitum á miðvikudag í næstu viku. Það lið er að miklu leiti byggt
upp á yngra árinu þannig að ef þessar stelpur halda vel á spöðunum eru allir vegir færir fyrir þeim á næsta ári.

Þó er tímabilið ekki alveg búið hjá A liðsstelpunum en 4. flokkur karla og kvenna hjá KA
fer til Svíþjóðar í lok júní á hið risastóra Partille cup. Því er nóg eftir hjá þessum stúlkum
og eflaust eiga einhverjar langlokur eftir að detta inn á þessa síðu í mínu boði.
Stefán Guðnason