A liðið vann umspils-leikinn við Valsstelpur nokkuð sannfærandi. KA byrjaði leikinn af feiknakrafti. Með
mjög góðri vörn, markvörslu og feikna góðum sóknarleik var staðan 10-0 fyrir KA stelpum þegar 15 mínútur voru búnar.
Staðan í hálfleik var 15-4 KA í vil. Breytt var um varnarleik í seinni hálfleik og nýjir hlutir prófaðir. Valsstelpur náðu með
því aðeins að klóra í bakkann og voru lokatölur 24-15.
Glæsilegur sigur hjá stelpunum og mikið fagnað í leikslok. Sigríður fór mikinn í markinu og varði 20 skot. Erfitt er að gera upp á
milli útileikmannanna þar sem þær áttu allar mjög góðan leik. Steinþóra skoraði sæg af mörkum í öllum
regnbogans litum og Sunnefa Nílsdóttir átti stórleik á línunni. Hvað eftir annað reif hún sig lausa og Valsstelpur áttu í miklum
erfiðleikum með hana.
Nú er það ljóst að stelpurnar munu spila við HK í 8 liða úrslitum og á eftir að finna tíma fyrir þann leik. Þó
er ljóst að lítill tími er til stefnu þar sem undanúrslitin og úrslitin eru á laugardag og sunnudag.
B liðið spilaði við Stjörnuna í sínum síðasta deildarleik á tímabilinu. KA
byrjaði af miklum krafti og var staðan 7-4 um miðbik fyrri hálfleiks. Þá slökuðu stelpurnar full mikið á og hleyptu Stjörnustelpum inn
í leikinn og leiddu þær með tveimur í hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði eins og hinn hafði endað og juku Stjörnustelpur forskot sitt.
Þegar einungis tíu mínútur voru eftir af leiknum ákváðu KA stelpur loksins að láta finna fyrir sér, lokuðu vörninni og
lögðu sig fram í sókninni. Með því náðu þær að jafna leikinn og komast yfir þegar tæpar tvær mínútur
voru eftir. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi og fyrir mikla óheppni og klaufaskap KA stelpna náðu Stjörnustelpur forskoti þegar
hálf mínúta var eftir. KA fer í sókn en sendir út af. Stjörnustelpur létu svo tímann bara líða í síðustu
sókninni, tóku þó skot þegar tíu sekúndur voru eftir og Karen varði vel en því miður náði KA ekki frákastinu og
boltinn fór í innkast. Svekkjandi tap því staðreynd.
Stjörnuliðið hefur virkilega sterkum stelpum á að skipa og sýndu KA stelpurnar enn og aftur í þessum leik að fá lið standast þeim
snúning þegar þær spila á fullri getu.
Stelpurnar fara núna um helgina og spila í 8 liða úrslitum, að öllum líkindum við Gróttu 2 og eru möguleikar þeirra í þeim
leik ágætir.
Stefán Guðnason