07.03.2009
A-lið og B-1 í 4. flokki karla léku gegn FH í dag. Leikirnir eru þeir fyrstu af fjölmörgum hjá KA í mars mánuði en núna er
lokaspretturinn af Íslandsmótinu opinberlega hafinn. KA fer mjög vel af stað í þeim hluta mótsins og unnu bæði lið góða sigra.
A-liðið vann 32-30 sigur eftir að hafa leitt með þremur mörkum í hálfleik. B-1 kláraði sinn leik strax í fyrri hálfleik og var
sjö mörkum yfir í hálfleik. Þeir unnu að lokum 29-19 sigur.
A-liðið hóf leikinn vel og náði góðri forystu strax. Þeir leiddu 14-7 um miðjan fyrri hálfleik og hafði liðið þá
verið að leika mjög góðan sóknarleik og fínan varnarleik. Í þeirri stöðu slaka menn á varnarlega og komst FH þá strax
mun nær KA. Staðan í hálfleik var 17-14.
Í seinni hálfleik vantaði enn aðeins upp á hjá KA. Framan af leik héldu þeir FH þó alltaf í ágætis
fjærlægð. Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum jafna FH-ingar leikinn hins vegar í 29-29. Okkar menn sýndu þá
gríðarlegan karakter og rifu sig aftur í gang. Með öflugri vörn, frábærri markvörslu og klókindum í sókn á
„peningamínútunum“ náði KA að skora næstu þrjú mörk leiksins og unnu að lokum 32-30 sigur.
KA sýndi mikinn styrk að klára leikinn á peningamínútunum, eða á mínútunum sem öllu máli skipta, og fá mikið
kredid fyrir það. Þeir voru svalir og yfirvegaðir í sókninni þegar mest á reyndi. Varnarlega náðu þeir sér aftur í gang
eftir ansi magrar mínútur þar á undan. Það varð liðinu næstum að falli að gefa eftir í 14-7 og hefði getað farið illa
í dag.
Miklu munaði um að liðið vann 3 mjög mikilvæga bolta á síðustu mínútum leiksins. Minnast verður á innkomu Ara Más
Egilssonar á lokamínútunum sem skipti sköpum. Hann stjórnaði leik liðsins vel seinustu mínúturnar, gerði gott mark, átti
stoðsendingu og vann einn af þessum boltum þegar mest var þörf á. Varnarlega stóð Andri Oddur Steinarsson uppúr sem spilaði mjög
góða vörn gegn besta leikmanni FH. Að öðru leyti var varnarleikurinn alltof misjafn og ekki nógu langur tími í leiknum sem var algjörlega
ásættanlegur. Í sókninni átti liðið góðan dag og fékk frammistöðu alls staðar frá sem öllu máli
skiptir. Liðið var þó óskynsamt á köflum og þurfa sumir leikmenn að taka frekar færin sem þeir fá en ekki þvinga fram skot
í slökum færum til þess eins að skjóta. Heilt yfir þó afar gott dagsverk sóknarlega.
Um næstu helgi fer liðið til Reykjavíkur og leikur þrjá leiki. Það eru algjörir úrslitaleikir um það hvort liðið ætlar
sér gott sæti fyrir úrslitakeppnina. Það er því ekki seinna vænna að fara að fara að hugsa um þá leiki.
B-liðið byrjaði leikinn hægt en í stöðunni 4-4 gáfu þeir í botni og sýndu styrk sinn. KA fór strax í 7-4 og leiddu okkar
menn svo 15-8 í hálfleik. Í síðari hálfleik var svo aldrei spurning um hvort liðið myndi vinna leikinn. KA hélt góðri forystu og
róteruðu sínu liði mjög. Gaman var að sjá að þeir sem inn komu héldu ávallt dampi. KA vann að lokum 29-19 sigur.
Þónokkur getumunur var á liðunum og gerði KA-liðið vel í leiknum. Varnarlega slakaði liðið á eftir því sem leið á
leikinn en í fyrri hálfleik var vörnin öflug lengi vel. Í sókninni er liðinu að fara mikið fram og hefur liðið skorað í kringum 30
mörk í öllum fjórum leikjum sínum á árinu. Liðið er árásargjarnara þessa dagana en í byrjun tímabils og er
það vel. Einnig er liðið farið að spila betur saman, hvort sem það er í frjálsu spili eða uppsettum leik. Um næstu helgi mun reyna
mjög á liðið og verða strákarnir þá að halda uppteknum hætti. Allir leikmenn verða að vera virkir og vera álveðnir í
að skila sínu til liðsins.
Liðið er nú í baráttu við tvö Gróttulið og Fram á toppnum. Öll liðin nema Grótta1 hafa tapað tveimur leikjum eða
fleirum. KA ásamt Fram eru einu stigi á eftir Gróttu1 ef við tökum mið af töpuðum stigum. Það reynir er því ljóst að
miklir hörkuleikir verða um næstu helgi þegar KA mætir bæði Gróttu1 og Fram. Núna er að duga eða drepast.