4. flokkur karla lék um helgina í KA-Heimilinu. A-liðið lék gegn toppliði Stjörnunnar og vann þar mjög sannfærandi sigur 26-21 eftir að hafa leitt með fjórum mörkum í hálfleik. B-1 vann Þrótt stórt 31-17 en B-2 beið lægri hlut fyrir Stjörnumönnum 16-17 eftir hörkuleik. A-liðið hefur nú komið spennu í sína deild og er nú einungis 2 stigum á eftir toppliðinu. B-liðin bæði eru líka einum sigurleik á eftir efstu liðum. Það er því alls staðar að fara í gang mjög spennandi og áhugaverð báráttu um efstu sætin í deildunum og skiptir hver leikur gríðarlegu máli þessa stundina.
A-liðið fékk topplið Stjörnunnar í heimsókn en fyrir helgina sátu Stjörnumenn á toppi deildarinnar nokkuð langt á undan næstu liðum. Okkar menn mættu mjög klárir í leikinn og ætluðu sér greinilega að sigra hann. Leikgleði og kraftur skein af KA strákunum í leiknum. KA-menn ná strax forystu í leiknum og bættu jafnt og þétt við hana út hálfleikinn. Þeir voru svo fjórum mörkum yfir í hálfleik 13-9.
Í byrjun síðari hálfleiks náði KA fimm marka forystu. Dalar þá leikur liðsins aðeins þegar Stjarnan hafði breytt um vörn og minnka gestirnir í tvö mörk. Þá gerðist merkilegur hlutur og mjög jákvæður fyrir okkar menn. Liðið hélt strúktúr og vann sig saman í gegnum þann slæma kafla og náðu strax aftur tökunum á leiknum. Að lokum vann KA svo 26-21 sigur á toppliðinu.
Í lið Stjörnunnar vantaði mikilvægan leikmann og munaði vissulega um það. KA-menn hins vegar ætluðu sér sigur
og fengu hann. Frábær varnarleikur gerði útslagið í leiknum en þegar liðið fær ekki nema 21 mörk á sig þá vinnur
það alltaf. Það segja staðreyndirnar. Sérstaklega í fyrri hálfleik var mjög gaman að sjá vinnsluna í vörninni en hún
var betri en oftast áður. Menn unnu frábærlega þegar boltinn var ekki nálægt þeim og hjálpuðust vel að í
leiknum.
B-1 mætti Þrótti í ansi skrautlegum leik. KA náði strax yfirhöndinni og var yfir allan leikinn. Eftir því sem leið á leikinn stækkaði munurinn alltaf meira og meira. Í hálfleik voru okkar menn 13-7 yfir og unnu að lokum 14 marka sigur 31-17 eftir hreint ótrúlegar lokamínútur þar sem hver leikmaður Þróttar fékk 2 mínútur á fætur öðrum fyrir viljandi brot á leikmönnum KA í opnum færum.
Strákarnir léku vel og margt jákvætt í leik þeirra. Vörnin var mjög góð lengi vel í leiknum,
sérstaklega í byrjun leiksins en KA var 6-1 yfir þegar 15-16 mínútur voru búnar af honum. Í sókninni fékk liðið
frammistöðu frá öllum leikmönnum og gaman að sjá jafn marga vera virka og í þessum leik. Menn voru ákveðnir og árásargjarnir
eins og þeir verða að vera. Byggja þarf á þessu og koma enn ákveðnari næst til leiks þegar FH kemur í heimsókn í byrjun
mars.
B-2 lék gegn Stjörnunni sem var fyrir leikinn með jafn mörg töpuð stig og okkar menn, og liðin að berjast um efstu sætin. KA-menn mættu grimmir til leiks og léku hörku varnarleik með dúndrandi markvörslu bakvið sig. Í fyrri hálfleik var sérstaklega hart barist og KA skrefinu á undan. KA leiddi 6-4 þegar skammt var til hálfleiks en Stjarnan skoraði seinustu tvö mörkin í hálfleiknum og 6-6 í hálfleik.
Í síðari hálfleik nær Stjarnan hins vegar yfirhöndinni. Þeir komast yfir og leiða allan hálfleikinn með 1-2 mörkum. Undir lokin nær KA að jafna í 16-16 og gátu þá komist yfir en það gekk ekki. Stjarnan fer upp og skorar 16-17 og lítið eftir. Þegar 10 sekúndur voru lifðu svo leik spilar KA vel niður í vinstra horn þar sem Sölvi í horninu var straujaður en einungis aukakast dæmt þrátt fyrir að augljóslega hafi verið um vítakast að ræða. Gestirnir unnu því eins marks sigur.
KA lék eins og áður sagði harðan varnarleik, sérstaklega í fyrri hálfleik. Menn börðust þar og ætluðu sér mikið. Það sem varð liðinu hins vegar að falli voru aðallega tveir hluti. A) Endalaus fráköst sem Stjarnan nær í leiknum sem varð til þess að þeir fengu alltaf annað tækifæri á að skora. Slíkt er afar dýrt, sérstaklega í jöfnum leikjum þar sem munar um hverja sókn. B) Liðið lék ekki nægilega góðan sóknarleik og vantaði þar allan kraft á tímabili. Flestir áttu inni sóknarlega í leiknum og munar það.