4. flokkur: A-liðið með glæsilegan sigur

A-lið 4. flokks karla í handbolta lék í dag leik við Fram en Framarar höfðu fyrir leikinn tapað fæstum stigum liða í deildinni og ljóst að um hörkuleik var að ræða. KA-menn sýndu framúrskarandi hugarfar í þessum leik og gáfu allt sem þeir áttu. Þeir bættu vörnina sína mikið frá undanförnum leikjum og unnu sannfærandi sigur 24-21 eftir að hafa leitt 12-7 í hálfleik.


Strákarnir mættu einstaklega vel undirbúnir til leiks og klárir í orrustu. Þeir börðust um alla bolta og ef þeir gerðu mistök þá bara bættu þeir það upp næst. KA náði strax frumkvæðinu og var yfir allan leikinn. Snemma komust þeir í 6-3 og bættu svo bara við muninn eftir því sem á leið og munurinn fimm mörk í hálfleik.


Í seinni hálfleik var KA alltaf nokkrum skrefum á undan Fram og sigurinn aldrei í hættu. Lokatölur urðu sem áður sagði 24-21 fyrir KA en munurinn hafði verið nokkuð stærri.


KA-menn spiluðu sinn lang besta varnarleik í vetur. Það sést best á því að liðið brýtur heil 51 fríköst í leiknum. Hreint glæsileg tölfræði það. Þeir kláruðu sína menn frábærlega og þurftu Framarar að hafa mjög mikið fyrir flestum mörkum sínum.


Viðhorf strákanna í dag var svo það lang besta til þessa. Menn lögðu sig alla fram og þrátt fyrir að eiga nokkuð inni á sumum sviðum þá skipti það engu máli og öruggur sigur á góðu liði staðreynd. Það skipti svo engu þótt leikmenn meiddust og þyrftu að fara útaf í einhvern tíma því þá voru alltaf næstu menn tilbúnir að stíga upp og hjálpa liðinu. Okkar menn fundu neistann í dag, saman, og verða verða að muna tilfinninguna sem fylgdi þessum leik vel því með þessu efforti geta þeir gert hvað sem er.