4. flokkur: B-1 vann stórsigur á Gróttu

B-1 í 4. flokki karla mætti toppliði Gróttu í dag. KA liðið tók áhættu og leituðu á vit hins ókunna en þeir prófuðu að gáfu sig alla í leikinn og fengu að sjá hversu miklu það myndi skila þeim. Það er skemmst frá því að segja að það skilaði stórsigri gegn liðinu í efsta sæti 30-20 eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik en KA liðið hreinlega glansaði í leiknum. Sigurinn tryggir liðinu nær örugglega heimaleik í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar sem hefst eftir skamma stund. Eftir þessa helgi er ljóst að ekkert lið fer heiltara inní þann hluta mótsins og KA-menn til alls líklegir leiki þeir áfram af þessum krafti.
KA mætti Gróttu 2 í gær og beið þar lægri hlut eftir að hafa verið yfir framan af leik. Þar slökuðu KA menn á eftir frábæra byrjun og varð það þeim að falli. Í dag var greinilegt að menn ætluðu ekki að gera sömu mistök og spiluðu strákarnir allan leikinn í dag á fullu. KA náði strax algjörum tökum á leiknum og komst í 9-4 um miðjan fyrri hálfleik. KA hélt áfram að bæta við forskotið fram að hléi og staðan 17-10 í hálfleik. Lokatölur urðu svo 30-20 sigur KA sem héldu bara áfram í síðari hálfleik.

Það er búin að vera löng bið eftir að liðið næði að toppa og það gerðu strákarnir svo sannarlega um helgina. Leikurinn í dag var frábær og steig liðið vart feilspor. Í vörninni hefur liðið tekið sig á og var vinnslan þar í hæstu klassa. Leikmenn voru vinnusamir og lögðu mikið þrek í að sinna varnarvinnunni. Það skilaði sér í því að liðið fékk afar fá auðveld mörk á sig. Þessi leikur var klárlega sá besti varnarlega í vetur og var líkt og byrjunin á leiknum í gær en með svona spilamennsku eiga fá lið séns í KA.

Í sókninni bætir liðið leik sinn með hverjum leiknum. Leikmenn skila alltaf meiru og meiru en ákveðnin var mjög mikil um helgina. Strákarnir gerðu mjög beittar árásir og skilaði það er í heilum 30 mörkum gegn toppliðinu í dag. Það besta við sóknina var hins vegar það að mörkin komu úr öllum stöðum og allir leikmenn liðsins tilbúnir að leggja til liðsins.

Karl Gunnar varði mjög vel í markinu í dag. Varnarlega voru allir góðir en sérstaklega ber kannski að nefna Daníel og Bjarka í hjarta varnarinnar sem voru eins og slátrarar og komst fátt í gegnum þá. Sóknarlega voru allir að skila. Friðrik gerði fjölda marka í dag og var mjög hættulegur bæði í horni og fyrir utan. Bjarki í skyttunni var ákveðnari í sínum aðgerðum en áður og klikkaði ekki skoti í dag. Kristján var mjög hættulegur hægra megin og er farinn að velja færi sín mun betur. Finnur heldur áfram að vera á fullum krafti en þannig ráða fáir við hann en aftur var hann snemma tekinn úr umferð. Daníel var mjög hættulegur og þá skiluðu hornamennirnir einnig mjög góðum mörkum, þá sérstaklega Garðar sem kom með sterka endurkomu eftir veikindi og gerði mikilvæga hluti fyrir liðið í leiknum.

Strákarnir sýndu hvers þeir eru megnugir og hafa nú vonandi áttað sig sjálfir á hvað þeir geta í raun og veru. Í dag voru þeir innstilltir og gáfu allt í leikinn. Niðurstaðan varð frábær sigur. Úrslitakeppnin hefst í næsta mánuði og fer KA-lið afar heitt inn í hana. Núna þurfa strákarnir að festa sig á þessum standard.