08.02.2009
B-2 lið 4. flokks fór suður um helgina og lék tvo leiki. Leikirnir voru gegn Fylki og Víkingi og unnust þeir báðir naumlega eftir mikla spennu í
lokin. Frammistaða strákanna var misjöfn um helgina, þeir léku á köflum mjög vel en duttu niður þess á milli. Ánægjulegast
er að tveir sigrar unnust og að strákarnir hafi skemmt sér vel í ferðinni.
Í fyrri leiknum mættu þeir Fylki. KA komst strax yfir og leiddi 4-8 þegar skammt var til hálfleiks. Heimamenn minnka muninn um tvö mörk fyrir hlé og
8-10 í hálfleik fyrir KA. Í seinni hálfleik komast Fylkismenn svo 11-10 yfir. Þá sýna KA-menn sinn leik og fara 11-16 yfir. Aftur slökuðu KA
menn á og hleyptu Fylki ansi nærri sér en unnu að lokum 17-19 sigur.
KA lék 3-2-1 vörn um helgina og var að prufa hana í fyrsta skipti í þessum leik. Mest megnis gekk hún mjög vel og gaman að sjá að
strákarnir voru virkilega að reyna að spila hana. Í sókninni vantaði hins vegar mikinn kraft í okkar menn í þessum leik og var hreyfing
án bolta alls ekki nægilega góð og gekk því illa sóknarlega lengi vel í leiknum.
Í dag léku þeir gegn Víkingi. KA náði forystunni í byrjun, þeir bættu alltaf jafnt og þétt við muninn og voru 9-13 yfir
þegar skammt var til hlés. Gefa þeir þá eftir og munurinn aðeins 13-14 í hálfleik. Í seinni hálfleik byrja Víkingar betur og
komast yfir 15-14. Þá sýndu KA menn styrk sinn og komast í fjögurra marka mun 17-21 og var þá eins og leikmenn héldu að leikurinn væri
búinn og sigurinn öruggur. Svo var ekki og minnkuðu heimamenn muninn í 22-23 þegar skammt var eftir og áttu séns á að jafna en það
tókst ekki og sigur KA staðreynd.
Í þessum leik var vörnin alls ekki nógu góð en sóknin mun betri en daginn áður. Boltinn gekk mjög vel milli manna og margir að koma vel
inn í spilið. Liðið stimplaði bolta vel á milli sín og fékk fjölmörg færi þannig.
Það sem einkenndi þessa helgi var kaflaskiptur leikur KA. Þeir koma alltaf með góða spretti og komast 4-5 mörkum yfir en þá hætta
þeir og hleyptu andstæðingunum aftur inn í leikinn. Í báðum leikjunum voru þeir með öruggar forystur en gefa eftir og slaka á og við
það kemst hitt liðið nær þeim. Strákarnir verða að læra að þótt þeir séu 4-5 mörkum yfir þá
verða þeir að spila sinn venjulega leik áfram en ekki breyta til því það var jú þeirra leikur sem kom þeim í þá
góðu stöðu sem þeir voru oft í.
KA er nú með 10 sigra í 12 leikjum og á toppi deildarinnar ásamt Stjörnunni og Haukum. KA fær Stjörnuna einmitt í heimsókn um næstu
helgi og verður það mjög spennandi leikur.