4. flokkur: Flottur sigur hjá A-liði

A-lið 4. flokks karla lék í dag gegn HK í KA-Heimilinu. Um var að ræða hörkuleik þar sem KA-menn léku mjög vel og bættu leik sinn mikið frá seinustu helgi. Þeir spiluðu góða vörn og unnu 31-26 sigur eftir að hafa verið 15-12 yfir í hálfleik. Liðið lék mjög hraðan handbolta og fékk t.d. fjölda góðra marka úr hraðaupphlaupum sem vörnin skapaði.

Jafnræði var framan af í leiknum en í stöðunni 5-5 taka KA-menn völdin á vellinum. Þeir styrktu vörn sína aðeins og fengu í kjölfarið hraðaupphlaup. Allt í einu voru þeir komnir 2-3 mörkum yfir og leiddu 15-12 í hálfleik. Í seinni hálfleik bætti KA svo bara við og var mest 8 mörkum yfir. Lokatölur urðu svo 31-26 sigur.

Eins og áður kom fram lék KA góða vörn sem skilaði liðinu ansi miklu í dag. Bakvið hana varði Bjarki Símonarson vel annan leikinn í röð.  Það hefur sýnt sig í vetur að alltaf þegar KA nær upp öflugum varnarleik þá vinnur liðið leiki sína.

Liðið skoraði mörg mörk eftir hraðan leik, hvort sem það voru hrein hraðaupphlaup eða á annan hátt. Sigþór Árni stjórnaði hröðu upphlaupunum, sem og sókn KA-liðsins, mjög vel en í dag lék hann sinn besta leik í vetur. Sigþór var kraftmikill, ákveðinn og mjög duglegur við að hvetja samherja sína áfram. Skytturnar Heimir og Snorri gerðu mörg góð mörk og spiluðu mjög vel í báðar áttir og sköpuðu góð færi. Það voru þó ekki bara þeir heldur skiluðu allir leikmenn KA sínu í leiknum.