18.01.2009
B-2 lið 4. flokks mætti Haukum í dag en sömu lið áttust við á Ásvöllum um seinustu helgi. Þrátt fyrir að liðin séu
svipuð að getu og að KA liðið væri að spila vel í þeim leik lauk honum með 8 marka sigri Hauka sem okkar mönnum fannst fá fullmikla
hjálpa frá embættismönnum handbotlalaganna í leiknum. Í dag hins vegar var þónokkuð annað uppi á teningunum en KA vann leikinn 25-23
eftir að hafa leitt mest með 6 mörkum í leiknum sem sýnir kannski hve mikinn þátt laganna verðir geta spilað í kappleikjum.
KA náði strax forystu og vildu greinilega sýna að þeir væru betri en Haukarnir í handbolta. Þeir mættu með frábæru hugarfari og
voru þremur mörkum yfir í hálfleik 15-12. KA-menn höfðu þá spilað hraðan leik og fengið fjölmörg mörk úr
hröðum upphlaupum auk þess að vera ákveðnir í sókninni.
Í síðari hálfleik var áfram gaman að sjá til liðsins og bættu okkar menn bara enn meira við og leiddu t.d. 21-15 þegar skammt var til
leiksloka. Þá gáfu KA-menn aðeins eftir og varð tveggja marka sigur raunin að þessu sinni 25-23.
Strákarnir sýndu frábæra frammistöðu í dag og lögðu sig alla fram. Gaman var að sjá alla leikmenn liðsins til í að skila
sínu í leiknum og vinna leikinn saman. Þar bar helst leikur Yngva sem skoraði á annan tug marka og sýndi hvað hann getur þegar hann er
ákveðinn. Þá áttu Garðar og Sölvi mjög góðan dag og eru mikið að vaxa sem handboltaleikmenn en samspil þeirra við
Rúnar á línunni var glæsilegt. Aðrir áttu einnig flotta leiki. Varnarleikurinn var öflugri en oft áður í vetur og munar um það
en fyrstu 40-45 mínúturnar af leiknum var liðið ill viðráðanlegt. Auk þess fékk liðið framúrskarandi markvörslu frá Hjalta
í markinu og munar svo sannarlega um það.