4. flokkur: Jafnt hjá KA og Þór

KA og Þór áttust við í hörkuleik í gær í 4. flokki karla. Leikurinn, sem fór fram í KA-Heimilinu, var æsispennandi og jafnræði lengst af í leiknum. Þór leiddi 13-15 í hálfleik og var fjórum mörkum yfir þegar skammt var til leiksloka. KA menn sýndu hins vegar mikinn karakter og héldu áfram og náðu í stig í leiknum. Þrátt fyrir það verður að segjast að KA liðið á að geta spilað betur og náð sigri en þeir réðu ekki við mjög öflugan leikmann Þórs í leiknum.

 


Hart var barist og jafnt á flestum tölum til að byrja með. Undir lok fyrri hálfleiks náðu Þórsarar hins vegar forystunni og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik 13-15 en einn leikmanna Þórsara hafði skorað 12 mörk í fyrri hálfleiknum og var KA-mönnum mjög erfiður.


Í seinni hálfleik náðu KA-menn að gera þeim leikmanni erfiðara fyrir og börðust meira og lögðu sig alla í þetta. Þegar fimm mínútur voru eftir var Þór 21-25 yfir og hefði þá verið auðvelt að gefast upp. En KA menn héldu áfram og ætluðu sér að ná einhverju út ur leiknum. Þegar 30 sekúndur voru eftir jafna þeir í 26-26 og ná boltanum þegar 10 sekúndur voru eftir og áttu möguleika á að vinna leikinn en það gekk ekki eftir og niðurstaðan jafntefli.


Strákarnir léku fínan sóknarleik lengst af og voru þeir að fá mikið af mörkum úr hröðum sóknum. Hins vegar þegar illa fór að ganga í seinni hálfleik fóru þeir að flýta sér og hættu að spila sinn leik en það verða þeir að laga. Það munu alltaf koma tímar þegar illa gengur og þá verða menn að halda haus og vinna sig út úr því saman sem lið.


Í vörninni áttu þeir svo afar erfitt með gríðar öflugan leikann Þórs sem skoraði að lokum 17 mörk í leiknum en allt leikskipulag þeirra snérist um hann. Þeir byrjuðu alltof seint að láta hann hafa almennilega fyrir hlutunum og eiga þeir að geta haldið betur aftur af honum en þetta.