4. flokkur: Jafntefli og tap í spennandi leikjum

4. flokkur karla lék við Gróttu í dag tvo æsispennandi leiki. A-liðið lék á undan og átti mjög góðan leik. Eftir mikinn baráttuleik varð niðurstaðan 26-26 jafntefli eftir að Grótta hafi jafnað úr aukakasti þegar leiktíminn var búinn. B-1 lék afar furðulegan leik gegn Gróttu2. Eftir að hafa leitt framan af leik varð niðurstaðan 25-26 tap undir afar sérkennilegum kringumstæðum.

A-liðið mætti frábærlega undirbúið til leiks. Leikmenn vildu greinilega sýna að síðasta suðurferð hafi ekki gefið rétta mynd af getu liðsins en þar tapaði KA m.a. með 9 mörkum fyrir sama Gróttuliði. KA náði strax undirtökunum í leiknum með afar beittum og ákveðnum leik. Strákarnir gerðu beittar árásir og náðu 8-5 forystu. Grótta kláraði hálfleikinn þó betur og 11-11 í hálfleik.

Í síðari hálfleik komst KA í 14-11. Þá glata okkar menn boltanum aðeins og Grótta jafnar stuttu síðar. Um miðbik hálfleiksins missti KA svo menn útaf og nær Grótta allt í einu 18-21 forystu. KA-menn neituðu þó að gefast upp og sýndu úr hverju þeir eru gerðir.  Með einstökum karakter jafna þeir leikinn í 21-21 og ná forystunni stuttu síðar. KA leiðir út leikinn og gat komist tveimur mörkum yfir. Heppnin var þó ekki með þeim og í stöðunni 26-25 fær Grótta aukakast þegar leiktíminn var liðinn. Úr því skoruðu þeir og jafntefli staðreynd.

Það var í raun grátlegt að KA strákarnir næðu ekki að vinna þennan leik því þeir spiluðu frábærlega í leiknum. Þeir lögðu sig alla fram og voru ákveðnir í öllum sínum aðgerðum. Þeir voru einungis hársbreidd frá sigri, alla vega ekki mikið meira en það. Varnarlega tóku menn sig gríðarlega á og í sókninni voru menn óhræddir og létu vaða.

Þessi frammistaða sýnir hvað liðið getur og myndi á flest öllum dögum duga til sigurs en þetta féll ekki með liðinu í dag. Strákarnir verða að halda svona áfram og festa sig á þessu leveli því næst á dagskrá er úrslitakeppnin og með svona leik geta þeir gert það sem vilja í henni.

Andri Oddur átti einstakan leik í KA-liðinu í dag en  hans frammistaða var í hæsta klassa, jafnt í vörn sem og í sókn. Andri, sem var mjög ákveðinn allan leikinn, var markahæstur í KA-liðinu með 8 mörk en hann var mjög yfirvegaður í færum sínum og skaut afar vel. Skytturnar Heimir og Snorri svöruðu kallinu og gerðu það sem þeir gera best. Báðir voru áræðnir og gerðu fjölda marka auk þess að búa einnig til færi. Sigþór skilaði frábærri varnarvinnu í leiknum en var tekinn stíft í sókninni. Þá voru Hjalti og Viktor afar öflugir í vörn, en Hjalti t.d. steig vart feilspor í mjög erfiðu hlutverki.

B-1 byrjaði leikinn frábærlega og voru strákarnir greinilega tilbúnir í leikinn. Þegar rúmur helmingur fyrri hálfleiks hafði verið leikinn leiddi KA 8-3 en Grótta hafði þá þurft að hafa afar mikið fyrir hverju marki sínu en KA vörnin var hreint frábær. Mætt var vel út í skyttur, einn á einn einvígi voru kláruð og var frábær færsla á öllu liðinu.

Í þeirri stöðu var sem KA menn hafi ákveðið að nú ætti erfiðisvinnunni að ljúka. Þeir slökuðu á og voru mörk Gróttu auðfengnari fyrir vikið. Gróttumenn fengu að skjóta óáreittir og var munurinn kominn niður í þrjú mörk í hálfleik.

Gróttumenn höfðu farið í neyðaraðgerðir varnarlega og tóku tvo leikmenn úr umferð. Sóknarleikur KA varð stirðari við það og fóru menn að flýta sér. Í stað þess að fá færið þá tóku þeir oft vitlausa sénsa, en þegar boltinn fékk að ganga fékk KA alltaf færi.Í byrjun síðari hálfleiks komst Grótta svo nær KA. Grótta jafnar í 14-14 og leikurinn jafn alveg eftir það. Allan seinni hálfleikinn áttu fengu Gróttumenn að skora of mikið af einföldum mörkum og þurftu ekki að hafa mikið fyrir þeim. Það hafði sitt að segja og undir lokin náði Grótta forystunni í leiknum og lokatölur 25-26 sigur þeirra.

Miklu munaði í leiknum að Grótta fékk rosalega mikið af dómum í leiknum sem áttu að falla KA megin og hafði það þónokkuð að segja. Einnig fengu gestirnir að haga sér eins og þeir vildu án þess að nokkuð væri gert í því. KA-menn þurfa þó að líta í eigin barm því eftir 16-17 mínútna leik í stöðunni 8-3 þá hættu þeir að spila sinn bolta. Þær mínútur eru líklega þær bestu hjá liðinu í vetur af mörgu leyti, sérstaklega varnarlega, en svo stuttur tími mun aldrei nægja til að vinna handboltaleik.

Allir sinntu frábærum varnarleik framan af og duttu eiginlega allir niður. Í sókninni lék Finnur afar vel en hann var mikið tekinn úr umferð í dag. Finnur var kominn á fullan kraft en þannig er hann ill viðráðanlegur. Friðrik og Daníel áttu einnig mjög góðan dag í sókninni og létu hafa mikið fyrir sér og börðust allan leikinn. Þá komu Bjarki og Kristján með góð mörk. Í markinu varði Karl Gunnar mjög vel framan af leik en þegar vörnin fór að dala datt hans markvarsla skiljanlega aðeins niður.