Forkeppni 4. flokks fór fram um helgina. KA er með þrjú lið í drengjaflokki og léku þau öll um helgina. Tvö þeirra, A-liðið og annað B-liðið (B 1), léku á Akureyri og unnu bæði riðla sína með tveimur sigrum. Hitt B-liðið (B 2) lék fyrir sunnan og vann einn af þremur leikjum sínum og mun því leika í milliriðli um næstu helgi. Glæsilegur árangur hjá strákunum og spilamennskan hjá þeim um helgina að lang mestu leyti mjög flott.
A-lið
A-liðið byrjaði á hörkuleik við Gróttu sem urðu deildarmeistarar í fyrra í B-liðum. Ljóst var því að um svakalegan leik yrði að ræða en einungis eitt lið í fer beint upp í efri deildina úr forkeppninni. Strákarnir fögnuðu áskoruninni og mættu gríðar vel undirbúnir til leiks. Þeir náðu strax forystuni 3-0 og héldu forystunni allan leikinn. Munurinn var lengst af á bilinu 2-4 mörk, en Grótta komst aldrei nær KA en tvö mörk. Staðan í hálfleik var 10-6 en KA vann að lokum 18-15. Þrátt fyrir þriggja marka sigur átti liðið nokkuð inni í þessum leik en til að mynda keyrði liðið ekkert í þessum leik og geta gert betur á fleiri sviðum. En þeir unnu á baráttu og góðri liðsheild og gerðu þeir það sem þurfti.
Í seinni leik sínum byrjuðu KA menn hins vegar afleitlega og voru ekki að leika á fullum krafti. Selfyssingar voru þá mótherjar okkar og komust þeir í 0-3. Þeir héldu góðri forystu lengst af í fyrri hálfleiknum og voru m.a. yfir 7-11 þegar skammt var til hálfleiks. KA vaknaði þá loksins og fór að gera hlutina af meiri krafi og skoraði seinustu 3 mörkin í hálfleiknum. Í seinni hálfleik var náði KA strax yfirhöndinni og voru komust mest 4 mörkum yfir en lokatölur voru 20-17 sigur okkar manna.
Strákarnir mættu með gríðar góðu hugarfari með Gróttu og sýndu þar mikla og góða liðsheild. Þeir lögðu sig alla fram og það var það sem skóp góðan sigur gegn Gróttu. Þetta sama hugarfar vantaði í byrjun gegn Selfoss en þetta lið getur einfaldlega ekki leyft sér annað en að vera á 100% krafti ætli þeir að vinna leikina. Í heildina er það frábært að tryggja sér strax sæti í efri deild og markmiðinu náð.
B 1
Strákarnir í B1 léku gegn HK fyrst og var það jafn leikur og spennandi. KA náði undirtökunum í byrjun en voru aldrei langt á undan HK. Sóknin var að ganga vel hjá okkar mönnum en í vörninni vantaði aðeins uppá. Eftir mikið jafnræði var staðan 10-10 í hálfleik. Í seinni hálfleik þéttu KA menn hins vegar hjá sér vörnina. Þeir náðu að komast 2-3 mörkum yfir og héldu forystunni allt til loka leiks. Lokatölur voru 18-16 fyrir KA.
Í seinni leik sínum mætti KA liði Fylkis. Þeir strákar eru margir nybyrjaðir að æfa handbolta og sýndu oft flotta takta. Þeir eru hins vegar nokkuð á eftir KA í handbolta og sást það. KA náði snemma góðri forystu og leiddu með níu mörkum, 13-4, í hálfleik. KA vann svo að lokum 21-6.
KA-liðið lék í heildina mjög vel í þessum leikjum. Sérstaklega sóknarlega var afar gaman að fylgjast
með þeim. Þar var samspilið gott og liðið alltaf að fá góð færi. Þá voru margir leikmenn að skila miklu fyrir liðið og
er það mjög gott, en þannig þarf það að vera áfram í vetur að menn séu óhræddir við að reyna. Varnarlega
vantaði aðeins uppá hjá þeim gegn HK en það lagaðist samt.
Núna þurfa KA menn að halda áfram á sömu braut því að þetta lið getur gert mikla hluti í vetur noti þeir veturinn rétt.
B 2
B2 liðið fór suður um helgina og var í sterkum riðli. Þeir léku þrjá leiki. Sá fyrsti var gegn ÍR. Sá leikur var
mjög jafn allan tíman og skipust liðin á að hafa forystuna. Hins vegar var KA yfir lengi vel í þeim leik. KA liðið lék góða vörn
og var sóknarleikurinn kaflaskiptur. Eftir hörkuleik vann ÍR nauman sigur með einu marki en með smá heppni hefði KA klárlega getað unnið
þann leik en þetta datt ekki fyrir okkur að þessu sinni.
Í öðrum leik mætti lék KA við Stjörnuna. Þar byrjaði KA leikinn frábærlega og lék liðið
við hvern sinn fingur. Þeir spiluðu gríðar harða vörn og spiluðu glimrandi sóknarleik en KA var 6 mörkum yfir í hálfleik. Í
seinni hálfleik hallaði aðeins undan fæti en að lokum vann KA tveggja marka sigur. Gríðarlega góður leikur hjá strákunum lengst af og
þeir vel af sigrinum komnir. Í Lokaleik sínum mættu þeir Fram en þeir eru með mjög sterkt lið og mun framar en KA. Fram vann að lokum
tólf marka sigur í þeim leik og lítið svo sem hægt að segja um þann leik. KA fer því í milliriðil og fer hann fram um
næstu helgi.
Suðurferðin var mjög skemmtileg og nutu strákarnir hennar alveg í botn. Þeir léku bara mjög vel í tveimur leikjum en eru aðeins á eftir Fram. Þeir spiluðu hörku vörn og sóknin gekk á köflum mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik gegn Stjörnunni. Liðið var að spila á fullu og lögðu strákarnir sig alla fram, það er ekki hægt að biðja um meira. Það skilaði einum sigri að þessu sinni en með örlítilli heppni hefðu sigrarnir geta verið tveir. En andinn í liðinu var góður og ferðin mjög vel heppnuð.
Stefán og Andri Snær þjálfarar