4. flokkur í handbolta til Ólafsfjarðar

Um komandi helgi er 4. flokkur karla í handbolta á leiðinni í æfingaferð til Ólafsfjarðar. Strákarnir hófu æfingar fyrir um tveimur vikum síðan og hafa í heildina rúmlega 30 strákar verið að mæta á æfingarnar. Þrátt fyrir að enn sé ágúst þá hefur mætingin aldrei farið undir tuttugu á æfingu sem er mjög gott.


Núna eru skólarnir að fara aftur af stað og því von á að fjöldinn á æfingum verði enn stöðugri og jafnvel meiri. Flokkurinn er að undirbúa sig fyrir Íslandsmót en rúmar tvær vikur eru í forkeppnina fyrir Íslandsmótið. Liður í þeim undirbúningi er æfingaferð til Ólafsfjarðar þar sem verður æft saman, skemmt sér og gist svo fátt eitt sé nefnt.


Farið verður á laugardegi og æft bæði þá og á sunnudegi áður en farið verður aftur heim. Utan æfinga hafa strákarnir svo frjálsan tíma og gera eitthvað saman. Svona ferðir geta verið mjög mikilvægar fyrir hópa en markmiðið með ferðinni er fyrst og fremst að þjappa hópnum saman. Samheldni og samvinna eiga að vera aðalvopn flokksins í vetur og er þetta liður í að efla það.

Meira um ferðina síðar.