Eftir mikil vonbrigði síðastliðinn sunnudag sýndi A-lið 4. flokks svo um munar hvað í þá er spunnið. Liðið mætti
Þór í gær í Síðuskóla. KA vann öruggan 8 marka sigur 34-42 í 50 mínútna handboltaleik eftir að hafa leitt 17-24
í hálfleik. KA lék mjög óhefðbundin handknattleik í leiknum og komu Þórsurum algjörlega úr jafnvægi með leik
sínum. KA-menn geta þakkað sigrinum það að allir 9 leikmenn sem voru á leikskýrslu voru klárir til leiks og allir skiluðu þeir,
hvort sem það var í vörn eða sókn. Liðsheildin á þennan sigur 100%.
KA byrjaði í maður á mann vörn og gekk það ekki alveg nægilega vel. Eftir 7 mínútur var jafnt 7-7 og breyta KA-menn þá um
vörn. Þeir bregða á það ráð að láta tvo leikmenn taka öflugustu skyttu Þórs úr umferð en sá skoraði 17
mörk í fyrri leik liðanna. Það leikafbrigði sló Þórsara algjörlega útaf laginu og 15 mínútum síðar var
staðan orðin 14-22 fyrir KA. Í hálfleik leiddu okkar menn svo 17-24.
Í síðari hálfleik var sigur KA aldrei í hættu. Þór minnkaði í fimm mörk snemma í síðari hálfleik en
þá jók KA strax muninn í 10 mörk. Lokatölur urðu svo 34-42 sigur KA.
Ótrúlegur sóknarleikur KA í leiknum átti mikinn þátt í sigrinum. 42 mörk á 50 mínútum er glæsilegur
árangur sérstaklega ef litið er til þess að KA fá bara 3-4 hrein hraðaupphlaup í leiknum. Öll önnur mörk komu gegn uppstilltri vörn
Þórs og úr öllum regnbogans litum. Leikmenn voru mjög ákveðnir í sínum aðgerðum og létu vaða. Þá spiluðu
þeir mjög vel saman sem lið og voru að búa til góða möguleika fyrir félaga sína. Varnarleikurinn gekk eins vel og hægt var að
þora að vona en KA tók áhættu í leiknum sem skilaði sér mjög vel að þessu sinni enda framkvæmdu leikmenn allt sem þeir
voru beðnir um.
Frábært hjá strákunum að koma til baka eftir að hafa dottið út úr bikarnum á dögunum. Þeir sýndu karakter í dag og
vilja. Það þarf ekki mikið meira.