4. flokkur karla: Sigur hjá B-2

B-2 lið 4. flokks karla spilaði einnig um helgina. Þeir mættu Aftureldingu. Eftir mjög kaflaskiptan leik okkar drengja unnu þeir 24-19. Þar með hafa öll þrjú lið flokksins unnið leiki sína um helgina sem er glæsilegt, sérstaklega í ljósi þess að flokkurinn fékk ekkert að æfa í KA-Heimilinu alla vikuna vegna þess að íþróttahúsið var upptekið fyrir skemmtanir og félagssamkomur. Strákarnir í liðunum ætluðu greinilega ekki að láta það á sig fá þótt ekki væri boðið upp á topp undirbúning fyrir leikina.

KA náði strax forystunni og bættu við hana framan af fyrri hálfleik. Þegar skammt var til leikhlés leiddu þeir 8-4. Þá slökuðu þeir á og staðan í hálfleik 11-9. KA hafði þá verið að gefa full auðveld færi til gestanna og verið óheppnir með fjölda skota í sókninni. Munurinn hefði því hæglega getað verið mun meiri.
 
Okkar menn virðast ekki hafa ætlað að mæta í síðari hálfleik því allt í einu var liðið 12-13 undir. Kviknaði þá í strákunum svo um munaði og KA stuttu seinna 21-15 yfir. Á þeim leikkafla sýndu KA-menn sínar réttu hliðar og kláruðu leikinn. Að lokum vann KA svo fimm marka sigur 24-19.
 
Enn átti liðið nokkuð kaflaskiptan leik. Sóknarleikurinn var góður nær allan leikinn en varnarleikurinn aftur á móti alltof misjafn.
 
Um næstu helgi á liðið tvo leiki. Þar þarf að ná að halda góðu köflunum lengur og stytta þá slæmu eins og mögulegt er, helst sleppa þeim alveg. Því það sást í leiknum að þegar liðið náði sér á strik að þá átti andstæðingurinn engin svör.