4. flokkur karla: Tveir öruggir sigrar á Þór

4. flokkur karla lék við Þór á miðvikudagskvöld en bæði A og B lið áttust við í Síðuskóla. Segja má að KA hafi verið mun sterkara í báðum leikjunum og unnið örugga sigra. Í A-liðum vann KA 21-28 eftir að hafa verið 10-14 yfir í hálfleik. Í B-liðum vann KA 21-26 eftir að hafa leitt 10-14 í hálfleik. Í A-liðum er KA á toppi deildarinnar og með fæst töpuð stig. B liðið á góðan séns á að ná öðru sæti deildarinnar.
Í A-liðunum var jafnræði til að byrja með. KA náði forystunni í byrjun en Þórsararnir komu svo með góðan kafla og leiddu 6-4. Þá bætti KA vörn sína og náði frábærum leikkafla og staðan allt í einu orðin 6-10. Sá munur hélst til hálfleiks og staðan þá 10-14. Í seinni hálfleik var aldrei spurning um hvort liðið myndi vinna leikinn. KA lék lengst af þétta vörn og leystu sóknarleikinn vel. Þeir voru alltaf yfir á bilinu 4-6 mörk og náðu mest sjö marka forystu. Lokatölur urðu 21-28. Frábær varnarleikur seinustu 35-40 mínúturnar sem og góð markvarsla skópu þennan góða sigur. Menn börðust mjög vel og Þórsararnir afar sjaldan að fá opin skot. Í sókninni leystu strákarnir það afar vel sem Þórsararnir settu upp, hvort sem það var eðlileg vörn eða einn eða tveir leikmenn teknir úr umferð. Sigþór Árni stóð sig virkilega vel í KA liðinu í dag og steig upp þegar Þór byrjaði leikinn á að taka leikmenn úr umferð. Hann stjórnaði sókninni, var ákveðinn og bjó mikið til. Bjarki Sæþórsson spilaði sinn besta leik í vetur, sérstaklega í sókn þar sem allt annað var að sjá til hans en hann skoraði fjölmörg mörk og átti margar stoðsendingar. Gunnar varði mjög vel í markinu og Ólafur skoraði mikið í sókninni. Þá barðist Hjalti Jón að venju eins og ljón og gaf allt sem hann átti. Varnarlega bar hann af og í sókninni fundu þeir hann svo betur en oft áður og skilaði hann miklu þar. B-lið KA náði strax undirtökunum á leiknum og komst 1-3 yfir. Þeir bættu svo jafnt og þétt við muninn út hálfleikinn og staðan 10-14 í hálfleik en KA strákarnir voru að spila virkilega flottan sóknarleik lengst af. Í seinni hálfleik héldu KA-menn áfram góðri forystu. Munurinn hélst á bilinu 4-5 mörk nær allan hálfleikinn en KA komst mest 6 mörkum yfir. Staðan fyrir seinustu vörnina var 20-26 en Þórsararnir skoruðu og lokatölur 21-26. Sóknarleikur okkar manna var að ganga virkilega vel nánast allan leikinn. Spilið var flott og menn ákveðnir í sókninni. Það virtist litlu skipta hverjir væru að spila því liðið fann nær alltaf þau færi sem við viljum. Í vörninni vantaði hins vegar nokkuð mikið uppá nær allan leikinn þó sigurinn hafi aldrei verið í hættu. Allt liðið lék vel og á hrós skilið fyrir frammistöðu sína í leiknum A-lið KA er efst í deildinni með 25 stig af 28 mögulegum. Þeir eru í mikilli baráttu við FH á toppi deildarinnar og ljóst að leikirnir tveir gegn FH, sem verða 8. og 9. mars muni ráða hvort liðið verði deildarmeistari. B-liðið er í 3. sæti eins og er með 15 stig af 22 mögulegum en með því að vinna þá leiki sem þeir eiga inni á Stjörnuna, sem er í öðru sætinu, munu þeir fara upp fyrir þá.