Þar sem þjálfari KA stúlkna var upptekinn þessa helgi út af undanúrslitaleik meistaraflokks var Vilhjálmur Einarsson fenginn til að fara suður með liðinu. Á laugardeginum mættu stelpurnar Fjölni í Grafarvogi. Eitthvað gekk illa hjá Fjölnisstúlkum að manna liðið og fyrir vikið mættu einungis sex stelpur til leiks hjá Fjölni!
Til að koma til móts við Fjölni spiluðu KA stelpur því jafn margar inn á.
Best er að hafa sem fæst orð um þennan leik. Leikgleðin var virkilega mikil hjá KA stelpum og börðust fyrir öllu sem þær fengu í þessum leik. Langflest mörkin komu úr hraðaupphlaupum og skiptust mörkin nokkuð vel á liðið.
Vörnin var gríðarlega sterk og fannst sumum foreldrum Fjölnisstúlkna vörnin full harkaleg, sem er lítið annað en viðurkenning fyrir
stelpurnar!
Á sunnudeginum spiluðu stelpurnar síðan við ÍR í Austurbergi, en Stjarnan, KA og ÍR eru að keppa um efsta sætið í deildinni um
þessar mundir.
Stelpurnar mættu hörku stemmdar til leiks og spiluðu sína landsþekktu hörðu vörn. Fyrri hluta hálfleiksins var jafnt á öllum tölum þar til að KA stelpur stungu af og staðan í leikhlé 8-10 fyrir KA.
Seinni hálfleikur byrjaði vel fyrir KA stelpur og komust þær í 10-13 og hefði munurinn í raun átt að vera mun meiri þar sem fjöldi hornafæra fór forgörðum í leiknum. Þá fór að síga á ógæfuhliðina hjá norðanstúlkum og náðu ÍR-ingar að jafna leikinn í 13-13. Við það að missa niður forustuna fóru stelpurnar á taugum og ÍR-ingarnir gengu á lagið og kláruðu leikinn, 21-16. Stelpurnar féllu í þá gryfju að fara að stressa sig og misstu kjarkinn. Þetta vandamál er ekkert nýtt af nálinni en fer þó batnandi. Um leið og fleiri sigurleikir safnast upp fá stelpurnar það sjálfstraust sem þær þurfa til að nýta sér hæfileika sína inn á vellinum. Í dag létu þær verja frá sér í seinni hálfleik slatta af skotum og misstu kjarkinn fyrir vikið. Það sýnir þó hugarfarslega framför að hér áður fyrr þurfti ekki meira en eina lélega sendingu til þess að kjarkurinn færi. Stelpurnar bæta sig leik frá leik og munu ná að hrista af sér þessa taugaveiklun á hárréttum tíma.
Vörn KA stúlkna var til fyrirmyndar í ÍR leiknum og hart barist. Fótavinnan var virkilega flott og stelpurnar spiluðu fast en heiðarlega. Stelpurnar létu þó áhorfendur fara í taugarnar á sér, en áhorfendur voru víst ósparir á fúkyrðin í garð KA stúlkna á meðan á leik stóð.
Um næstu helgi er leikur gegn Stjörnunni hérna heima og fá stelpurnar því tækifæri til að sanna fyrir sjálfum sér að þær geta vel spilað heilan leik, með sjálfstraustið í botni.
Síðan er vert að þakka Vilhjálmi Einarssyni fyrir að taka flokkinn að sér þessa helgi, en hann fór suður í minn stað út af bikarleiknum á laugardeginum. Einnig þökkum við í 4. flokk Hörpu Baldursdóttur sem var með Villa í leikjunum um helgina.
Stefán Guðnason