Einhver skjálfti var í stelpunum í byrjun og náði Stjarnan yfirhöndinni. Aldís Mánadóttir kom þó KA stelpum á
bragðið með þremur góðum mörkum í röð. Vörnin var sterk og fengu Stjörnustelpur aldrei frið í sókninni. Með
gríðarlega sterkri vörn og ágætis sóknarleik leiddu KA stelpur með tveimur mörkum í hálfleik. Munurinn hefði þó átt
að vera meiri en stelpurnar gerðu nokkur klaufamistök undir lok hálfleiksins.
Stjörnustelpur byrjuðu seinni hálfleikinn á því að taka Kolbrúnu Einarsdóttir úr umferð til þess að riðla
sóknarleik KA stúlkna. Það gekk þó engan veginn þar sem inn var komin Þrúður Starradóttir sem lék sér að
því að fara fram hjá vörn Stjörnunnar. Eftir fjögur mörk í röð frá Þrúði gafst Stjarnan upp á
því að taka Kolbrúnu úr umferð. Vörn KA þéttist og Eir Starradóttir datt í gírinn. KA stelpur tóku öll
völd á vellinum og juku muninn jafnt og þétt. Mestur fór munurinn í 11 mörk og virtist hver sem geta tekið af skarið í sókninni.
Leikurinn endaði með 8 marka sigri KA stúlkna og hefði sigurinn hæglega getað orðið stærri.
Stelpurnar stóðu sig virkilega vel í leiknum og voru vel að sigrinum komnar. Berglind Ottesen fór hreint út sagt á kostum í vörn KA
stúlkna og voru þær sem sóttu á hana ekki í öfundsverðu hlutverki.
Landsliðsstúlkan Kolbrún spilaði virkilega vel í vörn og sókn og var dugleg að búa til færi, Aldís og Hjördís
stjórnuðu spilinu vel og skoruðu virkilega góð mörk af gólfi eða með uppstökum auk þess sem þær skiptu varnarhlutverkinu á
milli sín og stóðu sig virkilega vel í því hlutverki, Freyja er loksins farin að fara í árásir til þess að koma sjálfri
sér í gegn og gerði það nokkrum sinnum í leiknum virkilega vel auk þess sem hún sinnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í
vörninni, Ólöf nýtti sín færi virkilega vel, Sunnefa stimplaði sig enn og aftur inn sem klassa línumaður sem vert er að fylgjast með og
Þrúður kom inn í leikinn af miklum krafti og steig upp þegar á reyndi og að lokum var Eir Starradóttir, bráðefnilegur markvörður
úr 5. flokk, svo sannarlega betri en engin í seinni hálfleik.
Stelpurnar spiluðu þó ekki yfir getu í leiknum, þær spiluðu af eðlilegri getu. Þær eru farnar að hafa trú á sinni eigin getu
og trú á hvað þær geta afrekað. Með það að vopni eru þeim allir vegir færir.
Markaskorar: Kolbrún Gígja Einarsdóttir 7 mörk, Sunnefa Nílsdóttir 5, Aldís Mánadóttir, Ólöf Höskuldsdóttir
og Þrúður Starradóttir 4 mörk, Hjördís Heimisdóttir og Freyja Kjartansdóttir 2 mörk.
Stelpurnar í B liði spiluðu einnig við Stjörnuna á sunnudeginum.
Leikurinn byrjaði illa hjá KA stelpum. Stjarnan náði
fljótt þægilegri forustu og KA stelpur gerðu lítið annað en að svekkja sig og pirra. Í kjölfarið fylgdu með fleiri mistök sem
gerðu KA stelpurnar ennþá pirraðri. Stjarnan réð öllu sem þær vildu ráða inn á vellinum og staðan því 4-10 fyrir
Stjörnunni í hálfleik.
Í hálfleik var farið yfir leikinn og hlutirnir endurskipulagðir.
Allt annað var að sjá til KA stelpna í seinni hálfleik. Þær höfðu gaman að því að spila handbolta og héldu alltaf
áfram. Vörnin þéttist smám saman og sóknarleikurinn batnaði til muna. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum voru KA stelpur
búnar að minnka muninn í 10-12 og voru til alls líklegar. Hins vegar töpuðust nokkrir mikilvægir boltar síðustu mínúturnar og Stjarnan
vann leikinn 12-15.
Það er furðuleg tilfinning að vera virkilega sáttur eftir tapleik. Hins vegar þegar litið er á staðreyndir þá er erfitt að vera
það ekki. Þegar þessi lið mættust síðast tapaði KA með 14 mörkum í leik sem hefði getað farið mun verr.
Mikil vandræði hafa verið með B liðið í vetur. Þrjár hafa meiðst og aðrar þrjár hættu í handbolta þegar leið
á keppnistímabilið. Þannig að eftir standa fjórar 4. flokks stelpur sem æfa reglulega. Til þess að fylla upp í götin hafa 5. flokks
stelpur verið fengnar til að spila með fjórða flokk og hafa þær staðið sig með prýði í vetur.
Í leiknum gegn Stjörnunni um helgina sást það greinilega hversu miklum framförum stelpurnar hafa tekið. Káin þrjú, Klara Katla og
Kolbrá hafa tekið virkilegum framförum í vetur. Kolbrá Ingólfsdóttir stóð sig virkilega vel á línunni og hikaði ekki við
að nota sinn mikla líkamlega styrk til þess að keyra andstæðinga sína í gólfið. Katla Káradóttir er farin að vera mun
yfirvegaðri og einbeittari í leik sínum og setti nokkur góð mörk úr öfugu horni. Klara Ólafsdóttir er farin að nýta snerpuna og
stökkkraftinn sinn mun betur en áður og nú þegar hún fer á fullum krafti og ákveðni í árás skilur hún
andstæðinga sína eftir með sárt ennið.
5 flokks stelpurnar spiluðu einnig gríðarlega vel í dag. Mættu óhræddar til leiks og létu finna fyrir sér á öllum
vígstöðvum. Auður Sölvadóttir kom inn í liðið eftir að hafa lítið æft upp á síðkastið sökum meiðsla
og anna og stóð sig virkilega vel. Kara „batic” Knútsen stóð sig með sóma í vörn og sókn sem og Laufey
Höskuldsdóttir og Arna Einarsdóttir.
Að lokum er ágætt að nefna það að þar sem nánast allir markmenn KA stúlkna í 5. flokk og 4. flokk voru ekki í bænum
þessa helgina var Hjördís Heimisdóttir sett í markmannsgallann og varði vel, meðal annars eitt víti.
Þær stelpur sem mynda B liðið eiga það allar sameiginlegt að þær eru gríðarlegar keppnismanneskjur. Hugarfar sem þær þurfa að læra að nýta sér. Í leiknum í dag sást það bersýnilega hversu vel þær geta spilað þegar þær beita skapinu rétt og hversu illa þær spila þegar þær fara að pirra og svekkja sig á hlutunum. Í seinni hálfleik léku þær virkilega vel og höfðu gaman að því sem þær voru að gera. Létu mistök ekki fara í taugarnar á sér og héldu bara áfram, en það er nákvæmlega sem þær eiga að gera. Sama hvað bjátar á, halda alltaf áfram og hafa gaman af hlutunum.