4. flokkur kvenna: Leikir síðustu helgar

Stelpurnar í 4. flokki fóru suður um liðna helgi. Fyrir lágu fimm leikir, þrír hjá B liðinu og tveir hjá A liðinu.
A liðið átti tvo leiki gegn Gróttu liðunum tveimur. Fyrst Gegn Gróttu3 og á sunnudeginum við Gróttu1.

Leikurinn gegn Gróttu3 byrjaði illa, Grótta3 komst í 3 marka forystu. Þá vöknuðu stelpurnar og byrjuðu að spila sinn leik. Heilt yfir var leikurinn ágætur hjá stelpunum en aðstæður sem þær gátu ekki stjórnað voru uppi í leiknum og fyrir vikið landaði Grótta3 tveggja marka sigri 22-20.

Leikurinn var eins og áður sagði ágætlega spilaður heilt yfir en stelpurnar létu þessar aðstæður fara í taugarnar á sér og misstu við það einbeitinguna. Að sjálfsögðu er það réttur þeirra sem stunda þessa íþrótt að þurfa ekki að lenda í þessari vitleysu en þær læra á því að sama hvernig aðstæðurnar eru, þurfa þær að halda áfram og missa ekki hausinn.

Leikurinn á sunnudeginum var gegn Gróttu1 sem verður að teljast sterkara Gróttu liðið. Stelpurnar mættu ákveðnar til leiks og spiluðu vel í leiknum og endaði leikurinn með 12 marka sigri KA, 8-20. Aldís Mánadóttir sem hafði farið mikinn í byrjun leiks var tekin úr umferð nær allan leikinn sem og Kolbrún Einarsdóttir, sem reyndar verður að teljast jákvætt þar sem hún var meidd eftir allar flugferðirnar sem hún hafði tekið í leiknum daginn áður og gat því ekki beitt sér á fullu. Við það losnaði um Freyju Kjartansdóttur sem bar uppi sóknarleik KA í seinni hálfleik og spilaði sinn besta leik í vetur. Hvað eftir annað skildi hún varnarmann sinn eftir með skrítinn svip.

Helsti munurinn á þessum tveimur leikjum var sá að á sunnudeginum var spilaður eðlilegur handbolti og þessar óviðráðanlegu aðstæður voru ekki í húsinu.

Staðan hjá A liðinu er ekki nægilega góð. Stelpurnar þurfa að treysta á að Víkingur vinni Stjörnuna næsta sunnudag til þess að eiga möguleika á 8 liða úrslitum í lok vetrar.

Hvernig sem það endar mega stelpurnar vera mjög sáttar við sinn hlut í vetur. Þær hafa tekið miklum framförum bæði líkamlegum og andlegum og því frekar súrt að lenda í þessu sem þær lentu í á laugardaginn.

B-liðið
Leikurinn gegn Haukum hjá B liðinu var líklega besti leikur stelpnanna í vetur. Stelpurnar börðust vel í vörninni og spiluðu fína sókn. Þær voru duglegar að búa til færi fyrir hverja aðra. Auðvitað voru einhver mistök gerð á báðum endum vallarins en það mikilvæga var að þær létu þau ekki fara í taugarnar á sér og héldu áfram. Liðið er að mestu skipað leikmönnum úr 5. flokk og stóðu þær sig virkilega vel sem og 4. flokks stelpurnar.

Á móti Fylki byrjaði KA virkilega vel, komust hvað eftir annað í gegnum vörn Fylkis en fyrstu fimm dauðafærin fóru forgörðum, en staðan eftir tæpar tíu mínútur var 1-0 fyrir Fylki. Við það misstu stelpurnar móðinn og Fylkir náði að koma sér í þægilega forustu fyrir leikhlé.
Seinni hálfleikurinn var mun betri þar sem stelpurnar héldu áfram allt til loka leiks.

Kolbrá Ingólfsdóttir fékk mikla hörkupunkta en hún spilaði stóran part leiksins á annarri löppinni. Í leiknum daginn áður hafði hún fengið hné í læri og var því á annarri löppinni gegn Fylki en hún lét það ekki á sig fá og barðist allt til enda.  Laufey Höskuldsdóttir fær naglaverðlaunin fyrir leikinn. Hún var að slást á móti stelpum sem voru allar höfðinu hærri en hún en undir lokin voru þær orðnar smeikar við hana. Í sókninni var hún síógnandi og komst í gegn þegar henni sýndist. Það eina sem háir henni er að hana vantar örlítið meiri ákveðni sóknarlega, hún býr yfir gríðarlegri snerpu sem hún má nýta sér meira í leikjum.

Þrátt fyrir að hafa tapað þessum leikjum er ekki annað hægt heldur en að vera ánægður með spilamennsku stelpnanna. Þær voru eins og áður sagði að búa til færi fyrir hvor aðra. Spilið var oft á tíðum virkilega gott og vörnin sterk. Þessar stelpur munu skipa 4. flokkinn á næsta ári og þegar þær verða farnar að æfa saman og spila reglulega saman er hægt að fara að búa til vonir um góðan árangur. Þetta eru hörku efni sem eru í þessum hóp og verður gaman að fylgjast með þeim á komandi árum.

Stefán Guðnason