A lið: Víkingur - KA
Fyrri hálfleikurinn á móti Víking hafði öll þessi merki. Víkingar hafa á að skipa
nokkuð góðu liði og virtist það nægja til þess að stelpurnar voru ragar og óákveðnar í sínum aðgerðum. Á
tímabili fékk maður á tilfinninguna að þessi leikur væri á sömu leið og margir aðrir. Mótherjarnir hanga inni nægilega lengi
til þess að stelpurnar brotnuðu. Í stöðunni 19-19 breyttist eitthvað. Hungrið í sigur skein úr augunum á þeim og viljinn til að
klára verkefnið kom bersýnilega í ljós. Á síðasta korterinu spiluðu stelpurnar hreint út sagt frábærlega og breyttu
stöðunni úr 19-19 í 30-20 þeim í vil.
Það er í raun ekki hægt að segja mikið um það sem gerðist annað en að þær ætluðu sér sigur. Það var
meginbreytingin. Loksins eftir langa bið, sýndu þær nákvæmlega hvað þær geta. Hættu að hugsa um það sem áður var og
einblíndu á núið. Vörnin var þétt og hrein unun að fylgjast með sókninni. Ólöf „Oddur” Höskuldsdóttir
nýtti færin sín úr hægra horninu gríðarlega vel og Kolbrún Gígja Einarsdóttir steig upp á nákvæmlega þeim
tímapunkti sem þurfti og dreif liðið áfram en hún skoraði heil 16 mörk í þessum leik, þrátt fyrir að vera tekin úr
umferð bróður part leiksins.
A lið: Stjarnan - KA
Fyrirfram var vitað að Stjarnan hefði á að skipa gríðarlega sterku liði, einu sterkasta liðinu í
þessari deild.
Stelpurnar byrjuðu þokkalega, en voru þó að gera allt of mikið af mistökum. Þær voru sífellt á eftir þeim og héngu inn
í leiknum með naumindum í fyrri hálfleik. Undir lokin á fyrri hálfleik gáfu Stjörnustelpur í og juku forskotið í 4 mörk.
15-11 í hálfleik og KA stelpur ekki líklegar til að koma sér inn í leikinn.
Eftir þungan fund inn í klefa mætti allt annað lið inn á völlinn. Lið sem langaði í árangur. Farið var í 6-0 vörn og
fóru stelpurnar hreinlega hamförum í vörninni með Berglindi Ottesen í fararbroddi.
Með gífurlegri baráttu og ákveðni náðu þær að koma sér aftur inn í leikinn og jafna í 18-18 og fengu fjölda
tækifæra til að komast yfir. Leikurinn var í járnum allt þar til að um þrjár mínútur voru eftir af leiknum en þá missir
KA leikmann í tvær mínútur út af og með því fór tækifærið. Klaufaskapur í bland við óheppni varð til
þess að Stjarnan komst yfir á nýjan leik og þar við sat.
Stelpurnar mega vera virkilega ánægðar með þessa helgi. Að sjálfsögðu hefði verið betra að vinna báða leikina en það
þarf að taka inn í reikninginn hvernig tapið var. Tapið kom í leik sem hefði getað fallið okkar megin á móti virkilega sterkum
mótherja. Hingað til hafa leikir tapast á skorti á sjálfstrausti eða út af einbeitingarleysi. Stundum hefur maður fengið það á
tilfinninguna að þær hreinlega langaði ekki til að vinna.
Það var ekki upp á teningnum í þessum leik. Stelpurnar spiluðu hverja aðra uppi hvað eftir annað og börðust eins og ljón í
vörninni. Kolbrún Gígja hélt uppteknum hætti og skoraði 15 mörk í leiknum, Berglind Ottesen fór á kostum í vörninni
ásamt Freyju Kjartansdóttur, en þær tvær mynduðu ægilegt teymi í hjarta varnarinnar. Hingað til hefur verið erfitt að stilla upp í
6-0 vörn þar sem alla stjórnun hefur vantað. Það var svo sannarlega ekki í dag og unnu þær tvær virkilega vel saman.
Það er skrítið að segja það en þegar liðið tapar í leik sem þessum, þar sem þær eru að berjast og leggja sig fram
þá svíður það ekki eins mikið og þegar liðið tapar í leik sem þær spila langt undir getu. Hingað til hefur hausinn á
þeim verið þeirra helsta hindrun en þær bættu það svo sannarlega um helgina.
B liðið spilaði á laugardeginum á móti HK2 og Stjörnunni á sunnudeginum
Það var eiginlega bölvanlegt fyrir B liðið að lenda á móti þessum tveimur liðum í fyrstu leikjunum þar sem þetta eru
klárlega tvö af sterkustu liðunum í deildinni.
Þrátt fyrir þessa þætti er ekki annað hægt heldur en að hrósa þessum stelpum fyrir leikinn á móti HK.
B lið: HK2 - KA
KA komst í 2-1 en eftir það tók HK2 öll völd á vellinum og unnu að lokum sannfærandi sigur.
Þrátt fyrir að úrslitin væru ekki hagstæð var margt mjög jákvætt í þeirra spilamennsku. Markvarslan á móti HK var
til fyrirmyndar, en Eir Starradóttir sem stóð í markinu byrjaði að æfa mark núna í vetur með 5. flokki og hefur tekið
gríðarlegum framförum á þessum stutta tíma.
Sóknarlega voru KA stelpur að gera virkilega góða hluti oft á tíðum. Hlaup án bolta voru hárrétt tímasett og vel leyst.
Það varð þeim aftur á móti að falli að nokkrum sinnum gekk illa að grípa boltann.
Eins og áður sagði voru stelpurnar að gera fína hluti sóknarlega oft á tíðum en vörnin var höfuðverkur. Það bætti svo
ekki úr skák að Katla Káradóttir braut einu regluna sem sett var fyrir leikinn, bannað að meiðast. Snéri hún sig illa á ökkla
í byrjun seinni hálfleiks og var óspilfær það sem eftir lifði leiks. Því leit allt út fyrir að KA þyrfti að spila einum
færri en þjálfari HK ákvað þá að hafa leikinn jafnan og tók eina hjá sér út af. Ljóst þykir að ekki allir
hefðu gert það sama og hann gerði og á hann heiður skilinn fyrir verknaðinn.
B lið: Stjarnan - KA
Leikurinn á móti Stjörnunni var ákaflega svipaður leiknum á móti HK2. Að sögn Hörpu sem
stjórnaði liðinu í leiknum var margt jákvætt í þeirra leik. Stelpurnar börðust og gerðu sitt besta en áttu lítið
í feiknasterkt Stjörnuliðið. Að vísu gerðu þær aragrúa mistaka en miðað við allt saman er það eðlilegt.
Eitthvað voru þær súrar margar hverjar eftir helgina og einblíndu á úrslitin og fannst þeim heldur skítt að tapa tveimur leikjum
sannfærandi.
Það má þó ekki hengja sig um of í úrslitum leikjanna. Um helgina vantaði nokkra sterka leikmenn í liðið og því ljóst
að um erfiða leiki væri að ræða. Hópurinn var heldur þunnur, en við náðum akkúrat í lið og þar af voru tvær
fengnar að láni úr 5. flokk ásamt því að ein af þeim byrjaði að æfa handbolta í síðustu viku. Þær eru allar
ennþá að læra og aðlagast nýjum aðstæðum og þegar sá tími verður búinn getur þetta lið farið að setja
aukna kröfu á árangur. Þangað til þurfa þær að vera þolinmóðar og læra af hverjum leik og mæta með réttu
hugarfari á æfingar. Það að temja sér það hugarfar að leggja sig alla fram á hverri einustu æfingu er ávísun á
árangur og því hugarfari búa þessar stelpur yfir.
Stefán Guðnason