4. Flokkur kvenna: Stórsigur á ÍR

Stelpurnar í 4. flokk kvenna fengu ÍR stelpur í heimsókn á sunnudaginn. Fyrir leikinn var nokkuð ljóst að stelpurnar ættu litla möguleika á því að komast í efstu tvö sætin í deildinni sem gæfu aðgang að 8 liða úrslitum en vonin var ekki úti og stelpurnar því klárar í að gera allt sem í sínu valdi stóð til þess að klára þennan leik.


Frá fyrstu mínútu var ljóst að KA stelpur ætluðu sér ekkert annað en sigur í leiknum. Eftir kortérs leik var staðan 11-2 fyrir KA og allt útlit fyrir stórsigur heimastúlkna. Þá slökuðu stelpurnar aðeins á og hleyptu ÍR-ingum aðeins inn í leikinn. Hættu að spila vörn og voru ómarkvissar í sókninni. Þrátt fyrir það áttu stelpurnar sex mörk í hálfleik, 14-8. Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri. KA stelpur léku á alls oddi og gátu þær nánast skorað þegar þær vildu. Varnarlega þjöppuðu þær sér vel saman og ÍR stelpur höfðu úr litlu að moða. Lokatölur voru 26-12 fyrir KA gegn ÍR en eftir leikinn fengu ÍR stúlkur afhentan deildarmeistaratitilinn.
ÍR fer því beint í 8 liða úrslitin og Stjarnan mun spila umspilsleik við næst neðsta lið 1. deildar um sæti í 8 liða úrslitum.

Niðurstaðan er því að vissu leiti vonbrigði. Stelpurnar tapa tveimur útileikjum gegn Stjörnunni og ÍR þar sem þær hefðu átt að gera betur auk þess að tapa útileik um síðustu helgi gegn Gróttu3 í vægast sagt sérkennilegum leik. Pakkinn í þessari 2. deild var það þéttur að ef þær hefðu unnið um síðustu helgi hefðu þær verið að spila um þennan deildarmeistaratitil við ÍR.

Burtséð frá þeim vonbrigðum að ná ekki inn í 8 liða úrslitin er engin ástæða til að vera ósáttur við veturinn. Stelpurnar hafa tekið gríðarlegum framförum og hafa alla burði til að ná eins langt og þær vilja. Þær eru duglegar, æfa aukalega og sýna mikinn metnað til að ná langt. Það sem hefur verið þeirra helsti veikleiki undanfarið er vantrú á sína eigin getu og virðist sem það slæma hugarfar sé á undanhaldi. Þær fóru í gegnum veturinn taplausar á heimavelli og rúlluðu yfir þau lið sem eru fyrir ofan þær í deildinni, Stjörnuna og ÍR. Heilt yfir spiluðu þær nokkuð vel í vetur. Gegn ÍR á útivelli spiluðu þær nokkuð vel framan af og voru með yfirhöndina nánast allan leikinn. Síðan klikkuðu þær á nokkrum skotum í röð og þá fór sjáfstraustið og ÍR gekk á lagið. Gegn Stjörnunni spiluðu þær þokkalega en til þess að leggja Stjörnuna á heimavelli þarftu að eiga toppleik. Gegn Gróttu3 spiluðu þær ágætlega en stundum er það bara ekki nóg.

Um næstu helgi er settur á leikur gegn Fjölni og er það síðasti leikur stúlknanna á Íslandsmótinu þetta árið. Hins vegar á það eftir að koma í ljós hvort að Fjölnir mætir í þann leik.

Veturinn er þó hvergi nærri búinn. Æft verður af krafti fram að sumri og reynt jafnvel að búa til einhver verkefni fyrir stelpurnar undir lok sumars.

Stefán Guðnason