4. flokkur kvenna: Tap hjá B-liðinu gegn Haukum

Stelpurnar í B liði 4. flokks áttu slæman dag á móti Haukum á sunnudag. Haukarnir byrjuðu mun betur og komust í 1-6. KA stelpur skiptu þá um gír og náðu að minnka í 6-7 en misstu svo leikinn frá sér aftur. KA stelpur komust þó nokkrum sinnum aftur inn í leikinn en misstu hann ætíð frá sér út af eigin klaufaskap.

Boltinn gekk mjög illa í sókninni og áttu þær í mesta basli með að kasta og grípa en sóknarmistökin voru mun fleiri en mörkin. Varnarlega voru þær oft úti að aka og einbeitingin ekki inn á vellinum. Ljósi punkturinn við þennan leik er þó klárlega markvarslan en Hulda og Eir stóðu svo sannarlega fyrir sínu í dag og héldu KA stelpum inn í leiknum.

Lokatölur 10-13 fyrir Haukum og svekkjandi að horfa á eftir tveimur stigum. KA stelpur sýndu ágætis takta inn á milli og hefðu á eðlilegum degi átt að gera betur. Þær 5. flokks stelpur sem spiluðu með liðinu í dag komust mjög vel frá þessu verkefni og stóðu sig með sóma og verður gaman að fylgjast með þeim í 5. flokknum í vetur.

Þó þýðir lítið að örvænta þrátt fyrir dapran dag. Liðið á helling inni, tvær hafa verið meiddar síðustu mánuði og eiga bara eftir að styrkjast. Liðið er að spila sig saman og mun á næstu mánuðum fara að hala inn stigum, á því leikur enginn vafi.