A lið 4. flokks spilaði gegn Gróttu3 á laugardeginum. Þetta var fyrsti heimaleikur A liðsstúlkna og einungis þriðji leikurinn þeirra í deild.
Það er best að hafa sem fæst orð um leikinn. Sóknarlega voru stelpurnar ragar í sínum aðgerðum og langt frá sínu besta. Stelpurnar gerðu mörg sóknarmistök og ef ekki hefði verið fyrir góða vörn og markvörslu hefði leikurinn getað endað illa. Sem betur fer sýndu stelpurnar þó góðan karakter og kláruðu leikinn með sigri. 15-14 voru lokatölur í leik sem seint verður talinn fallegur handboltaleikur.
Hins vegar mega stelpurnar eiga það að þær kláruðu leikinn með sigri þrátt fyrir að spila langt undir getu nánast allan leikinn.
Á sunnudeginum áttu stelpurnar síðan leik við Gróttu1 sem er sterkara Gróttu liðið af þeim tveimur. Allt annað var að sjá til KA í þessum leik. Stelpurnar voru ákveðnar í sókninni og spiluðu sig hvað eftir annað glæsilega í gegnum vörn Gróttu. Varnarlega spiluðu stelpurnar gríðarlega vel og áttu Gróttu stelpur í miklum vandræðum með að stöðva okkar stúlkur. Grótta brá á það ráð að taka Kolbrúnu Einarsdóttur úr umferð nánast allan leikinn en það kom þó ekki að sök þar sem að Kolla leysti inn á línu og réðu Gróttu stelpur lítið við hana í þeirri stöðu. Sanngjarn heimasigur, 18-13 og fögnuðu stelpurnar gríðarlega í lokin.
Heilt yfir var helgin mjög jákvæð. Fjögur stig af fjórum mögulegum og mikill sigurvilji í stelpunum þrátt fyrir að taugarnar hafi farið svolítið með þær á laugardeginum. Varnarlega eru stelpurnar að standa sig gríðarlega vel með Berglindi Ottesen í fararbroddi og í sókninni er Kolbrún Einarsdóttir óstöðvandi þegar hún spilar á fullum krafti.
Þrátt fyrir að vera tekin úr umferð bróðurpart leikjanna skoraði hún 18 mörk í leikjunum tveimur úr öllum mögulegum stöðum.
Stelpurnar eru á góðu róli og eru í stöðugri framför. Hugarfarslega eru þær að taka sig vel á, sjálfstraust og sigurvilji er farinn að gera vart við sig hjá flestum. Nokkrar eiga þó inni trú á sjálfa sig sóknarlega og þegar þeir hlutir smella verða þær ill viðráðanlegar.
Það sem er þó jákvæðast við leik þeirra um þessar mundir er sú harka sem þær eru að sýna. Bæði hvað varðar sinn varnarleik og síðan hvernig þær taka því þegar þær meiðast. Samanber þegar Kolla lenti í svipuðu atviki og Holyfield lenti í fyrir nokkrum árum þegar Tyson beit hann í eyrað. Þrátt fyrir að fá vænan skurð á eyrað var Kolla brjáluð þegar hún mátti ekki fara strax aftur inn á. Hægt væri að nefna fleiri dæmi til að renna frekari stoðum undir þessa fullyrðingu en ætli það sé nú ekki óþarfi. Stelpurnar eru að sýna hámarks hörku inn á vellinum og frábært hugarfar jafnt innan vallar sem utan sem er virkilega jákvætt og nákvæmlega það sem stefnt var að.
Næsti leikur stelpnanna er eftir tæpar þrjár vikur, eða 8 febrúar gegn Víkingum í KA heimilinu.