4. flokkur kvenna hefur lokið keppni að sinni

B lið 4. flokks kvenna brunaði í gær, síðasta vetrardag, suður til að etja kappi við Gróttu2 í 8 liða úrslitum Íslandsmótsins.
Leikurinn hófst af krafti, stemmingin í húsinu var stórgóð og mikið af áhorfendum og látum. Óákveðni og mistök einkenndu sóknarleikinn í fyrri hálfleik skiluðu fáum mörkum, en gríðarlega sterk vörn KA stúlkna skilaði sömuleiðins fáum mörkum á móti.

Eftir fyrri hálfleik þar sem fagur handbolti fékk að víkja á kostnað hörkunar var staðan 10-9 Gróttu2 í vil. Stelpurnar höfðu spilað góða vörn og létu vel finna fyrir sér. Í seinni hálfleik byrjuðu stelpurnar á því að skora virkilega gott mark úr vinstra horninu og vörðust ákaflega vel. Mikið jafnræði var á liðunum fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en mörkin létu á sér standa hjá hvoru liði. Eftir þessar fyrstu tíu mínútur tók við skelfilegur tíu mínútna kafli. Aðeins eitt mark var skorað gegn átta mörkum Gróttu2.  Staðan því orðin 18-10 og fimm mínútur eftir. Á þessum kafla höfðu KA stelpurnar verið virkilega duglegar að safna að sér tveimur mínútum og voru þær iðulega einni eða tveimur færri á þessum tíma. Síðustu fimm mínúturnar voru síðan nokkuð rólegar og lokatölur 20-13 Gróttu2 í vil.

Helsti akkílesar hæll KA stelpna í dag var sóknarleikurinn. Aldrei í leiknum komst almennilegt flot á boltann og einföld atriði eins og að kasta og grípa vöfðust fyrir þeim og alla áræðni vantaði í marga leikmenn. Skotnýtingin var líka virkilega léleg og létu þær markmann Gróttu eiga alltof auðveldan dag. Skotin voru flest beint á markmanninn eða rétt við hlið hennar og þegar um er að ræða gæða markmann eins og Grótta2 hefur í sínum röðum ganga slík skot hreinlega ekki upp. 

Það sem gerir handbolta að svo skemmtilegri íþrótt er að á góðum degi getur allt gerst. Frá áramótum hefur verið mjög góður stígandi í leik liðsins og þær hafa sankað að sér stigum. Toppliðin hafa tapað, gert jafntefli eða unnið með einu gegn KA sem segir til um styrk þeirra. Það er því leiðinlegt fyrir þessar stelpur að hitta á leik eins og þennan í átta liða úrslitum. Sumir dagar eru erfiðari en aðrir og þessi var klárlega erfiður. Þrátt fyrir að hafa tapað þessum leik mega stelpurnar vera virkilega stoltar af sínum árangri. Þjálfari KA var sakaður um svindl í leiknum því nokkrar Gróttu stelpur uppástóðu það að Hjördís Heimisdóttir og Freyja Kjartansdóttir hlytu að vera A liðsstelpur og því væri þjálfari KA svindlari og svínari.  Þær tvær eru einungis tvö dæmi um leikmenn sem hafa vaxið gríðarlega í vetur. Hvert sem er litið í þessu B liði má sjá klár merki um framfarir. Þar sem leikmen B liðsins eru 15 í það heila held ég að það sé öllum fyrir bestu að ég fari ekkert að tíunda þær framfarir hér á síðunni, heldur verði það tekið fyrir í eigin persónu.

Til að gera langa frásögn stutta um þetta blessaða B lið þá er þetta best sagt í einni setningu. Þetta B lið getur unnið hvaða lið sem er í þessari deild, en einnig tapað fyrir hvaða liði sem er. Þegar þær koma því inn í hausinn á sér að þjálfararnir eru ekki að ljúga því að þeim að þær séu góðar í handbolta þá verða þeim allir vegir færir. Sjálfstraust og trú er eitthvað sem þeim vantar og er ég þess fullviss að þegar þeir hlutir verða komnir í lag verða fáir sem standast þessum stelpum snúning.

Nú er Íslandsmótinu lokið hjá 4. flokk kvenna þetta árið. 
Hvað veturinn í 4. flokki kvenna varðar þá tókust öll sett markmið og gott betur. Fyrirfram var stefnt á að fjölga iðkendum, koma metnað inn í hausinn á þeim og fyrir það fyrsta, gera þær samkeppnishæfar öðrum liðum á landinu. Bæði lið fóru inn í 8 liða úrslitin. A liðið datt út í hörkuleik á móti deildar og bikarmeisturum 4. flokks kvk og B liðið hefði á góðum degi getað farið lengra. Á æfingum eru sjaldnast undir tuttugu stúlkur mættar og heildarfjöldi flokksins eru 25 kvikindi. Framfarirnar í flokknum heilt yfir eru stórkostlegar og metnaður stúlknanna til fyrirmyndar.
Annað sem við þjálfararnir settum sem markmið fyrir veturinn var að gera önnur lið kvíðin fyrir því að spila við KA. Sett var það takmark að spila fasta vörn og láta finna fyrir sér í hverjum leik. Það teljum við að hafi tekist. Þess ber þó að geta að hér er ekki verið að tala um að spila skítuga og óheiðarlega vörn, heldur meira að láta finna heiðarlega fyrir sér.
Annað sem var höfuðverkur til að byrja með var að alla innanliðs hvatningu vantaði og stelpurnar létu lítið heyra í sér inn á vellinum. Þögðu frekar eins og litlar mýslur. Þegar leikir A og B liðsins eru skoðaðir upp á síðkastið á maður bágt með að trúa því að þetta hafi verið vandamál. Stemmingin er allsráðandi og varla að þjálfaragreyið komist að til að kalla einhverju inn á.

Stelpurnar í 4. flokk kvenna mega vera virkilega stoltar af árangrinum hingað til og ættu flestar að vera tilbúnar að taka næsta skref. Það hefur loðað við 4. flokk kvenna að mikið brottfall verður eftir hann. Það er heitasta von okkar þjálfaranna að slíkt verði ekki upp á teningnum þetta árið. Stelpurnar hafa alla burði til að ná lengra og höfum við ekki trú á öðru heldur en að þeim langi til að taka næsta skref.

Þó má ekki láta eins og þær séu komnar í sumarfrí. Nú í sumar fer liðið á Partille Cup í Svíþjóð og verður gaman að sjá hvernig tekst til.  Stelpurnar eru nú farnar þó í tveggja vikna frí frá æfingum þar sem meginn þorrinn er að undirbúa sig fyrir samræmduprófin. Eftir samræmduprófin hefst svo undirbúningur fyrir Svíþjóðaferðina.

Stefán Guðnason