4. flokkur kvenna lauk keppni á Íslandsmótinu um páskana

Stelpurnar í 4. flokk kvenna spiluðu þrjá daga í röð í páskafríinu. Á Íslandsmótinu átti A liðið eftir einn leik við Fjölni og B liðið átti eftir einn leik gegn HK.

HK ákvað þó að koma með allan sinn flokk hingað norður og nýta tækifærið og spila æfingaleiki við lið KA. Í A liðum hefur HK verið á miklu skriði í 1. deildinni en eftir slæma byrjun hafa þær unnið sig upp töfluna og sitja nú í 4. sæti 1. deildarinnar.

B liðið spilaði gegn HK2 í fyrsta leik vetrarins og þar töpuðu þær þeim leik nokkuð örugglega. Þannig að nota átti þennan leik til að sjá hverjar framfarirnar höfðu verið í vetur. Því miður ákváðu KA stelpur að mæta ekki til leiks þennan daginn en sá leikur var vægast sagt slakur hjá þeim. HK vann nokkuð öruggan sigur og algjör synd að ekki var hægt að nýta þetta tækifæri betur.

Daginn eftir var annar leikur spilaður og þar sá maður úr hverju stelpurnar eru gerðar. Þær mættu til leiks ákveðnar og spiluðu miklu betur heldur en daginn áður. Þrátt fyrir mjög góða spilamennsku töpuðu KA stelpur með einu marki en engu að síður var allt annað að sjá stelpurnar í þessum leik og hefði leikurinn getað fallið KA megin með smá heppni.

Þrátt fyrir að stigin hafi verið fá í vetur geta stelpurnar verið mjög sáttar með sinn árangur. Þær eru farnar að spila vel saman, farnar að búa til færi fyrir hverja aðra og spila hörku varnarleik þegar hausinn á þeim er rétt stilltur.

Nú er kominn tími fyrir þessar stelpur til að stíga næsta skref og verður virkilega gaman að fylgjast með þessum hópi næsta vetur en margar bráðefnilegar stúlkur spila í þessu B liði. Uppistaðan er að mestu lið 5. flokks sem hefur enn ekki tapað leik í vetur. Auk þeirra eru nokkrar stelpur sem eru á yngra ári í 4. flokk þetta árið og hafa þær allar tekið miklum framförum og munu ásamt 5. flokksstelpunum mynda 4. flokks lið KA á næsta ári sem verður til alls líklegt.

A liðið spilaði tvo leiki við A lið HK. Fyrri leikurinn var ágætlega spilaður, þó áttu HK stelpur 4 mörk í hálfleik og höfðu leitt allan fyrri hálfleikinn. Munaði þar að mestu um slakan sóknarleik framan af leik. Í seinni hálfleik réttu KA stelpur úr kútnum og fóru að spila sinn bolta. Síðustu tíu mínúturnar í leiknum voru virkilega vel spilaðar. Varnarlega skelltu KA stelpur í lás og það litla sem komst í gegn varði Ásrún virkilega vel, en hún var með 18 bolta varða í þessum leik. Sóknin gekk virkilega vel, góð hreyfing án bolta ásamt góðu línuspili skóp sigurinn í þessum leik, en KA sigraði leikinn með 4 mörkum.

Daginn eftir spiluðu stelpurnar aftur við A lið HK en fundu sig engan veginn í þeim leik. Boltinn gekk illa og glataðar sendingar gerðu vart við sig. Það skal þó ekki tekið af þeim að þær gáfust ekki upp og héldu áfram allt þar til að flautan gall. HK sigraði þann leik með þremur mörkum en það skal ekki tekið af stelpunum að þær börðust þrátt fyrir að vera að spila undir getu.

Auk þessara leikja voru spilaðir þrír hálfleikir á blönduðum liðum og óhætt að segja að margar fróðlegar uppstillingar voru reyndar.

Lokahnykkurinn í þessari törn var svo leikur A liðsins gegn Fjölni.

Þessum leik hafði þrívegis verið frestað og því kærkomið að fá loksins að spila þennan leik.

Síðasti leikur liðanna í Reykjavík endaði með 28 marka sigri KA og því hætta á því að stelpurnar mættu illa einbeittar í leikinn. Þær féllu þó ekki í þá gryfju og mættu ákveðnar til leiks og kláruðu leikinn frekar snemma. Fjölnisstelpu höfðu þó tekið framförum frá síðasta leik og áttu sína spretti í leiknum. Leiknum lauk með öruggum sigri KA þar sem allar spiluðu bæði vörn og sókn með góðum árangri.

Heilt yfir er ekki annað hægt en að vera sáttur með stelpurnar.

Spilamennskan í þessum leikjum sýndi það hversu stutt þær eru frá toppliðunum. Það er eins og hefur verið sagt áður, synd að þær komust ekki lengra en þetta en það er þó gríðarlega jákvætt hvað þetta er samheldinn og skemmtilegur hópur sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í þessari íþrótt. Svo skemmir það ekki fyrir þeim að allt útlit er fyrir að þær muni allar mæta til leiks aftur á næsta ári, fyrir utan Þrúði sem tekur sér ársfrí frá Íslandi.

Veturinn er þó ekki búinn hjá 4. flokk kvenna þar sem farin verður æfingaferð til Reykjavíkur núna í lok apríl. Þar munu þær keppa tvo til þrjá æfingaleiki áður en sumarfríið tekur við.

Stefán Guðnason