4. flokkur kvenna lék sinn annan leik á tímabilinu klukkan 09:00 á sunnudagsmorgunn. Um síðustu helgi steinlá liðið heima fyrir Víking í afskaplega döprum leik. Í þeim leik voru stelpurnar engan veginn tilbúnar í kollinum til að spila handbolta og var sett sú krafa á þær fyrir þennan leik að mæta klárar.
Leikurinn byrjaði heldur rólega í markaskorun en stelpurnar spiluðu fanta vel i vörninni og Lína Aðalbjargardóttir átti stórleik fyrir aftan góða vörn heimastúlkna. Eftir 15 mínútna leik var staðan 2-2 og í hálfleik var staðan 5-5. Fylkisstelpur höfðu brugðið á það ráð að taka Laufeyju Höskuldsdóttir úr umferð og við það riðlaðist sóknarleikur heimastúlkna mikið. Stelpurnar urðu ragar við að sækja á og virtist herbragð Fylkis ætla að ganga upp. Sóknarleikurinn small þó aftur í gang þegar línumaðurinn sterki Kolbrá Ingólfsdóttir lék fyrir utan. Bæði lið höfðu þó hægt um sig sóknarlega en vörnin hjá KA/Þór bætti upp fyrir öll mistök í sókninni.
Þegar líða fór á leikinn fóru mörkin þó að koma hægt og bítandi og smám saman sigldu heimastúlkur fram úr. Þegar 10 mínútur voru búnar af seinni hálfleik var staðan 9-6 fyrir KA/Þór og tók Fylkis þjálfarinn þá leikhlé. Það virkaði ágætlega því að á nokkrum mínútum minnkuðu gestirnir muninn og staðan orðin 9-8 KA/Þór í vil. Á þessum kafla ætluðu allar sér að vera með í gleðinni og hættu að spila upp á hvor aðra. Leikurinn breyttist í hálfgerða skotkeppni hjá KA/Þórs stúlkum og hleyptu þær Fylki inn í leikinn. Stelpurnar spýttu þó vel í lófana síðustu mínúturnar og unnu verðskuldaðan sigur, 15-11.
Það sást um leið og stelpurnar mættu í hús klukkan 08:00 í morgun að þær voru klárar. Einbeitingin skein úr augunum á þeim og endurspeglaðist það í upphitun og frá fyrstu mínútu. Sóknin gekk vissulega brösulega lengst af í leiknum. Mikið um mistök og illa farið með góð færi. Hins vegar bættu þær upp fyrir öll mistök í sókninni með fanta góðri vörn með Línu gríðarlega heita fyrir aftan múrinn. Þórey Lísa Þórisdóttir spilaði vörnina eins og herforingi þrátt fyrir að vera búin að liggja rúmföst síðustu þrjár vikur vegna veikinda og sýnir það að miklu leiti þann karakter sem stelpurnar sýndu í þessum leik. Það er erfitt að rífa sig upp eftir slæmt tap en stelpurnar gerðu það svo sannarlega. Allar voru gríðarlega virkar, létu vel í sér heyra og börðu vel frá sér.
Stelpurnar voru bara að spila sinn annan leik í vetur í dag og því alveg vitað fyrirfram að sóknin myndi ekki vera eins smurð og hún á eftir að vera. Einbeitingin, baráttuviljinn og sigurhungrið skilaði þeim þessum tveimur stigum í dag. Það er mjög mikið af hæfileikaríkum stelpum í þessum hóp og verður mjög spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni. Ef þær halda vel á spöðunum, æfa vel og leggja sig allar fram má búast við miklu af þessum hóp í náinni framtíð. Í dag eru þær að spila við lið sem er svipað í styrkleika og Víkingsliðið sem þær steinlágu fyrir um síðustu helgi, munurinn var hins vegar sá að þær mættu gríðarlega einbeittar til leiks og lögðu sig allar, hver eins og einasta, hundrað prósent fram og uppskáru eftir því.
Um næstu helgi á liðið tvo erfiða leiki fyrir höndum í Reykjavík gegn Val og Aftureldingu og alveg ljóst að stelpurnar þurfa að mæta með sama hugarfari í þá leiki og þær sýndu i dag.
Markaskorar KA/Þór: Laufey Höskuldsdóttir 5 mörk, Klara Ólafsdóttir 3 mörk, Jóna Birkisdóttir, Kolbrá Ingólfsdóttir og Arna Einarsdóttir 2 mörk hver og Kara Guðný Knútsen 1 mark.
Í markinu varði Lína Aðalbjargardóttir 15 skot þar af eitt víti.