4. flokkur kvenna stóð í ströngu um helgina

Stelpurnar í A liði 4. flokks fóru suður til að keppa í niðurröðunarmóti HSI um liðna helgi.
Fyrirfram var vitað að róðurinn yrði þungur enda virkilega sterkur riðill sem KA lenti í.
Fyrsti leikurinn var við FH og var fyrirfram ljóst að það yrði hörku leikur. Jafnt var á öllum tölum framan af og var staðan 8-7 fyrir FH í hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði ákaflega illa hjá KA og skoruðu FH stelpur 4 mörk gegn 1 KA marki. Þá gáfu stelpurnar í og náðu að minnka muninn í 1 mark, 12-11 og FH manni færri og tvær og hálf mínúta eftir af leiknum.

Þá lentu þær í því að fá á sig tveggja mínútna brottvísun fyrir brot og þar við sat. FH gekk á lagið og skoraði tvö síðustu mörk leiksins. Lokatölur 14-11 fyrir FH.

Strax eftir leikinn við FH var spilað við mjólkurstúlkurnar frá Selfoss. Selfoss er í uppbyggingarstarfsemi og var gaman að sjá þær með í 4. flokk kvenna þetta árið.

KA tók fljótlega frumkvæðið og hélt því til loka leiks og unnu þar góðan sigur 19-16. Leikurinn sem slíkur var ágætur, vottur af kæruleysi í leikmönnum enda þreyta og aðrir hlutir farnir að spila þarna inn í.

Selfoss spilaði framliggjandi vörn sem hentaði KA stelpum ákaflega vel, enda allar frekar kvikar á fótunum. Aldís Mánadóttir virtist vilja spila allar stöður því ekki skipti máli hvar á vellinum liðsfélagi hennar var kominn í vandræði því alltaf var hún komin til að fá boltann fyrir aftan hana og skapaði það mörg góð mörk.

Þar sem FH vann HK nokkuð örugglega var ljóst að enginn möguleiki væri á því að hreppa fyrsta sætið á mótinu og tryggja sig þar með beint upp í 1. deild. Leikurinn við HK á sunnudeginum snérist því aðallega um að fara með 2 stig inn í milliriðilinn um næstu helgi.

Leikurinn við HK var líkt og FH leikurinn, í járnum. KA stelpur stóðu vörnina gríðarlega vel og HK stúlkum varð lítið ágengt. Því miður var það sama upp á teningnum og fyrri daginn að sóknin var döpur. Staðan 5-5 í hálfleik sem eru sjaldséðar tölur í 20 mínútna hálfleik.

Eftir mikla baráttu í seinni hálfleik þurftu KA stelpur að lúta í lægri haldi gagnvart liði HK en lokatölur voru 12-11. Það sem stóð upp úr í þessum leik var frábær varnarvinna KA stúlkna, en HK liðið skoraði 8 af 12 mörkum sínum af vítalínunni.

Þar sem Þróttur sendi ekki lið til keppni á þessu móti fór sá leikur 5-0 KA í vil.

Stelpurnar sýndu það um helgina að þær eiga fullt erindi í 1. deildina í vetur. Það virðist samt einkenna þennan árgang að þær hafa ekki nægilega trú á verkefninu. Vörnin var gríðarlega góð en sóknin var langt frá því að vera spiluð á eðlilegri getu. Það verður því verkefni númer eitt í vetur að fækka setningum þeirra sem innihalda orðasambönd eins og "get ekki, kann ekki, skil ekki" og fá þær til að hafa trú á eigin getu. Leikirnir á móti FH og HK tapast út af því að stelpurnar trúa ekki nægilega vel á hvað þær geta. Það vantar í þær einhverja frekju og ákveðni. Þær þurfa að vilja skora sjálfar, þær eru of mikið að reyna að spila upp á aðra leikmenn og þar af leiðandi eru þær að gera þetta full erfitt fyrir sig.

Þetta er hörku lið sem eru allir vegir færir. Þurfa þó fyrst og fremst að koma því inn í hausinn á sér að þær eru orðnar góðar í þessu sporti.

Erfitt er að taka einhvern einn leikmann út úr eftir þessa helgi. Allar áttu þær sína spretti bæði í vörn og sókn. Berglind Ottesen hélt áfram að jarða leikmenn líkt og prestur í fullu starfi og kollegi hennar á línunni, Sunnefa Nílsdóttir átti sinn besta leik varnarlega í leiknum á móti HK.  Einnig er vert að geta þess að Ásrún Guðmundsdóttir sem er nýfarin að æfa handbolta aftur eftir fjögurra ára fjarveru, varði eins og berserkur í markinu og vakti framganga hennar mikla athygli.

Um næstu helgi leikur því A liðið í milliriðlum og fer inn í þá með ekkert stig. Þar sem dregið er í milliriðla eru 25% líkur á því að mótið verði haldið hérna fyrir norðan. Verið er að skoða möguleikana í stöðunni þó fyrst að reyna að fá mótið hingað norður.

Meira um það síðar.
Stefán Guðnason