4. flokkur kvenna stóð í ströngu um liðna helgi.

Stelpurnar í 4. flokki kvenna fóru suður og spiluðu þrjá leiki um síðustu helgi. 
Mótið hefur spilast heldur illa fyrir stelpurnar en fyrir helgina höfðu þær spilað fimm leiki, þrjú töp og tveir sigrar. Það hefur einkennt stelpurnar að tapa heldur stórt þar sem þær hafa átt í erfiðleikum með að halda haus þegar á móti blæs.

Fyrsti leikurinn um helgina var gegn Haukum á Ásvöllum. Það er í raun óþarfi að eyða of mörgum orðum í þann leik. Stelpurnar spiluðu einstaklega illa í leiknum og létu lið Hauka leika sig frekar grátt. Sex víti fóru í súginn og fjöldamörg dauðafæri fóru forgörðum. Spilið gekk gríðarlega illa og vörnin döpur. Það verður þó að furða sig á því að Haukar ákváðu að taka Auði Brynju úr umferð síðasta korterið þrátt fyrir að sigurinn væri orðinn nokkuð öruggur á þeim tímapunkti, en Auður hafði staðið sig með sóma í leiknum. Lokatölur 23-13 fyrir Haukum.

Á laugardeginum áttu stelpurnar leik við Víking. Fyrri leikurinn gegn Víking endaði með stórsigri Víkings í KA heimilinu í fyrsta leik vetrarins. Stelpurnar spiluðu mun betur í þeim leik heldur en daginn áður og var leikurinn nokkuð jafn þar til fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en þá náðu Víkingsstelpur fimm marka forustu og staðan því 13-8 í hálfleik fyrir Víking. Seinni hálfleikur spilaðist svipað og fyrri hálfleikurinn allt þar til að Auður Brynja fór út af vegna meiðsla eftir harkalega bakhrindingu. Stelpurnar gáfu eftir en komu þó sterkar til baka síðustu fimm mínúturnar sóknarlega en vörnin var langt frá sínu besta. Lokatölur 25-16 fyrir Víking. Jákvæðir punktar í leiknum voru þó þeir að loksins fóru stelpurnar að minna aðeins á hversu vel þær geta spilað þegar þær eru ákveðnar og sækja á vörnina af krafti.

Á sunnudaginn spiluðu stelpurnar gegn efsta liði deildarinnar, Fram. Fram hefur á að skipa stórum og sterkum skyttum, góðum markverði og gríðarlega vel spilandi liði. Það var því ljóst fyrir leikinn að róðurinn yrði þungur. Ekki hjálpaði til að Auður Brynja var meidd og gat því ekki spilað með að þessu sinni.

Stelpurnar tóku sig saman í andlitinu frá óförum dagana á undan og spiluðu sinn langbesta leik yfir veturinn. Spiluðu gríðarlega agaða sókn og mjög sterka vörn. Leikurinn var jafn lengst af en þó dró aðeins á milli liðanna þegar Laufey Höskuldsdóttir þurfti að fara út af vegna meiðsla en fram að því hafði hún stjórnað spilinu í sókninni gríðarlega vel, skapað mikið af færum fyrir sig og aðra. Í hálfleik var staðan 10-7 fyrir Fram og ljóst að stelpurnar áttu ennþá mikið inni. Seinni hálfleikur byrjaði frekar illa fyrir norðanstúlkur sem misstu dampinn í sókninni og vörnin fór að hiksta. Þegar Laufey kom síðan aftur inn á í síðari hálfleik fór KA maskínan aftur í gang og stelpurnar léku við hvern sinn fingur. Prjónuðu sig í gegnum vörnina þegar þeim sýndist og létu Fram stelpur berjast fyrir hverju einasta marki sem þær skoruðu. Arna Kristín Einarsdóttir nýtti sér hvað eftir annað góða opnun í boði Laufeyjar Höskuldsdóttur og Kolbrár Ingólfsdóttur og fleygði sér inn í færið og endaði hún markahæst KA stúlkna með 7 mörk. 
Vissulega unnu Fram stelpur sigur, 22-17 en þó eiga KA/Þór stelpur hrós skilið fyrir gríðarlega góða baráttu og áræðni.

Þrír leikir, þrjú töp er afleit tölfræði ein og sér. Hins vegar þarf að taka það inn í reikninginn að stelpurnar bættu sig leik frá leik. Ég leyfi mér að fullyrða að ef þær hefðu spilað á móti Haukum eins og þær spiluðu á móti Fram hefðu úrslitin orðið önnur. Þær hafa átt það til í vetur að þegar illa gengur frjósa þær og engin þorir að taka af skarið og ef það er gert er tekin kolröng ákvörðun sem verður til þess að þær fá mark í bakið. Á móti Fram hættu þær þessu og fóru að spila agað og gekk sóknin til að mynda lengst af nokkuð vel. Loksins kom stimplun í spilið fyrir utan og fyrir vikið opnaðist vörn Fram hvað eftir annað og hinum megin lömdu þær vel frá sér.

Stelpurnar mega vera nokkuð sáttar við Fram leikinn og vonandi draga þær dýrmæta lexíu af hinum leikjunum tveimur.

Stefán Guðnason