4. flokkur tapaði gegn Haukum

A-lið 4. flokks mætti Haukum í dag í KA-Heimilinu. Um seinustu helgi fóru strákarnir suður að spila og léku þar háklassa handbolta, skemmtu sér mikið og uppskáru tvo frábæra sigra í deild. Í dag ákváðu þeir hins vegar einhverra hluta vegna að mæta ekki til leiks með sama hugarfari og uppskáru sannfærandi tap 22-27 fyrir vikið.


Strax í byrjun sást að mikið vantaði uppá að KA-menn væru á fullu en Haukar unnu á öllum sviðum handboltans tengdum baráttu. Haukar ná t.d. að taka 5 fráköst af skotum sínum í fyrri hálfleik og fá þ.a.l. fimm auka sóknir í hálfleiknum sem KA hefði annars getað skapað sér. Þar sem sóknarleikurinn gekk vel, og sérstaklega þegar KA stillti upp í kerfi, var staðan 13-13 í hálfleik.

Í seinni hálfleik sást svo greinilega hvort liðið hafði meiri vilja til þess að vinna leikinn, það lið var klætt rauðum búningum. Haukar komust strax tveimur mörkum yfir og gera KA menn þá hlut sem aldrei á að sjást. Þeir hætta að spila sem lið og halda að besta leiðin til að vinna sé með einstaklingsframtökum og allt í einu ætlaðu leikmenn að klára leikinn einir og sér. Það gekk ekki betur en svo að liðið tapaði seinni hálfleik 9-14 og leiknum 22-27.

 

Það var engin leikstjórn hjá KA liðinu í seinni hálfleik og mjög leitt að sjá að enginn þorði að fara fyrir liðinu þegar illa fór að ganga. Enginn tók ábyrgð og reyndi að laga þá hluti sem voru að fara úrskeiðis. Það gerðist enn að þegar liðið lenti undir þá fóru þeir að spila allt annan leik en lagt er upp með og það er eitthvað sem þarf að laga svo um munar. Því að þó liðið lendi 2-4 mörkum undir og 15-20 mínútur eftir þá verða menn að átta sig á að það er nægur tími til að laga stöðuna og ná aftur að jafna.

 

Leitt er einnig að sjá að KA-menn hafi ekki ákveðið að spila á sömu hlutum og þeir hafa verið að vinna þrjá frábæra sigra að undanförnu með. Liðið er einfaldlega ekki betra en þetta þegar menn spila ekki saman sem lið og eru ekki á fullu.

 

Næsti leikur strákanna er næstkomandi laugardag gegn HK.