5. flokkur kvenna - sigur í öllum leikjum helgarinnar

Nú um liðna helgi tók 5. flokkur kvenna þátt í sínu fyrsta móti vetur. 

Haldið var sem leið lá til Hafnarfjarðar þar sem keppt var á Hafnarfjarðarmóti Hauka og Actavis. Leikstaður KA-stelpna var Ásvellir og gist var í næsta nágrenni í Hvaleyrarskóla. Þetta var annað mótið á Íslandsmótinu en þjálfarar höfðu áður tekið þá ákvörðun að taka ekki þátt í fyrsta móti vetrarins sem fram fór í Vestmannaeyjum um miðjan október.

Það mót var svo kallað niðurröðunarmót og sökum þess að KA tók ekki þátt voru stelpurnar í B riðli nú um helgina. Á dagskrá voru 5 leikir og hitti niðurröðun mótsins þannig á að fyrsti leikur var kl.  19:40 á föstudagskvöldi og sá síðasti 13:20 á laugardegi – sem sé tvær og hálf klukkustund af handbolta á innan við sólarhringi. Á föstudagsmorgun kom það svo í ljós að Stefán Guðnason þjálfari hafði staðið í stórræðum um nóttina sökum veikinda og forfallaðist því. 

Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur með meiru og pabbi Eirar markmanns, hljóp í skarðið og eru honum hér enn og aftur færðar gífurlegar þakkir fyrir það.

Það verður að segjast að við fórum suður með töluverða óvissu í farteskinu. Undirritaður bar ekki mikið skynbragð á það hvernig stelpurnar stæðu gagnvart jafnöldrum sínum  en hafði þó alla tíð mikla trú á sínum stelpum og trúði því fyrirfram að þær myndu gera sitt allra besta. Til að gera langa sögu stutta hér strax í byrjun fór svo að KA sigraði alla sína fimm leiki í mótinu og það nokkuð örugglega! 

FH2 – KA
Sá fyrsti var gegn liði FH2. Sá leikur kláraðist í fyrri hálfleik en stelpurnar okkar skoruðu þá 6 mörk gegn engu marki andstæðinganna. 

Lokatölur í leiknum urðu 14-2 KA í vil. Stelpurnar komu mjög ákveðnar til leiks og spiluðu virkilega góða vörn með Laufeyju Láru í fararbroddi. Fyrir aftan vörnina stóð Eir sig frábærlega sem sést á því að FH2 skoraði ekki mark í fyrri hálfleik.

HúsVíkingur - KA
Næsti leikur var gegn liði Húsvíkings – sameiginlegt lið Völsungs og Víkings Rvk. Sá leikur fór af stað með töluverðu jafnræði liðanna til að byrja með en síðan sigu okkar stelpur fram úr hægt og rólega. KA leiddi með tveggja marka mun í hálfleik og lokastaða var 13-8 og stelpurnar með þægilegt nesti á bakinu fyrir leikina þrjá sem eftir voru.

Selfoss2 – KA
Eftir mislangan svefn var haldið til næsta leiks við lið Selfoss2 daginn eftir. Stelpurnar voru ekki alveg vaknaðar í fyrrihálfleik og hálfleiksstaða var 3-3. Þær tóku sig þó á í seinni hálfleik, fóru á fætur og skoruðu 10 mörk á sama tíma og þær fengu bara 3 á sig. 

Lokastaða 13-6. Arna Kristín fór á kostum í seinni hálfleik og skoraði í honum einum og sér 5 mörk.

HK – KA
Næsti leikur var gegn HK og var það að mati þjálfara erfiðasti leikurinn þessa helgina. Þegar hér er komið við sögu var þreyta farinn að segja greinilega til sín og skoruðum við ekki nema 2 mörk í fyrri hálfleik. Vörnin var hins vegar þétt og stelpurnar héldu hreinu í fyrri hálfleik – í annað skipti þessa helgina. Seinni hálfleikur var ekki eins góður en stelpurnar áttu inni góða frammistöðu í fyrri hálfleik. Úrslit gegn HK voru 5-3 KA í vil. 

Kara Guðný tók af skarið þegar á þurfti í sóknarleiknum gegn HK og sýndi mikinn karakter þegar það þurfti og dreif liðið áfram.

Afturelding – KA
Síðasti leikur helgarinnar gegn Aftureldingu var spilaður eftir ágætis pásu og matarhlé. Eitthvað var hausinn ekki á réttum stað í upphafi og í eina skiptið þessa helgina lentu stelpurnar undir í stöðunni 3-4 eftir að hafa komist í 2-0. En þá tók Lína markvörður upp á því að skella bara í lás og stelpurnar gengu á lagið og var staðan í hálfleik 7-5 okkur í vil. Liðin skiptust á að skora í seinni hálfleik en þó var sigurinn í raun aldrei í hættu. Auður Brynja stórskytta sýndi það að hún er vel nothæf í vinstra horninu en hún skoraði 2 mörk í þeirri stöðu í leiknum gegn Aftureldingu.

Ónefndar hér eru nýju stelpurnar Anja og Hildur. Þær stóðu sig frábærlega í sínu fyrsta handboltamóti og sýndu að þær eiga eftir að koma mikið við sögu í vetur. Síðast en ekki síst eru það Lára, Marta og Þórey. Þær stóðu sig allar gríðarvel. Lára var alltaf komin fremst í hraðaupphlaupin og skoraði þannig ófá mörkin af þeim 58 sem liðið skoraði alls um helgina. Marta stóð sig mjög vel í hjarta varnarinnar og stjórnaði þar eins og herforingi og Þórey átti mjög gott mót bæði í vörn og sókn.

Eins og ætti nú að liggja ljóst fyrir af þessari lesningu var helgin frábær í alla staði. Stelpurnar sýndu að þær eiga erindi í hóp þeirra bestu og koma til með að spila í A riðli í næsta móti sem verður í byrjun febrúar. Þangað til er nægur tími til þess að fara yfir þau atriði sem þarf að laga (sem þó eru heilt yfir ekki mörg) ásamt því að æfa almennt bara vel. Undirritaður þakkar kærlega fyrir sig og hlakkar mjög til næstu æfingar.

Sindri Kristjánsson