Stelpurnar í 5. kvenna fóru suður um helgina til að keppa á sínu 2. móti. Á síðasta móti unnu stelpurnar sinn riðil
nokkuð sannfærandi en vegna fækkunar í 1. deild og fjölgun á deildum voru stelpurnar aftur látnar spila í 2. deild.
Mótið byrjaði snemma hjá stelpunum. Fyrsti leikurinn var gegn Fylki og hófst hann klukkan 08:00. Svo snemma að kaffið var ekki einu sinni tilbúið!
Gegn Fylki mættu stelpurnar klárar í leikinn og spiluðu ágætlega heilt yfir. Vörnin var ágæt og sóknin góð.
Stelpurnar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik og hefði munurinn eflaust getað verið stærri. Í seinni hálfleik komust Fylkisstelpur
aðeins inn í leikinn en náðu þó aldrei yfirhöndinni. KA vann að lokum með einu marki, 9-8 en Fylkir skoraði síðasta mark leiksins.
Næsti leikur var gegn Aftureldingu. Jafnt var á öllum tölum framan af en um miðjan síðari hálfleik sigldu KA stúlkur fram úr og
lönduðu góðum fjögurra marka sigri, 12-8.
Þriðji leikurinn var gegn ÍBV. Framan af var jafnt á öllum tölum en um miðjan fyrri hálfleik tóku KA stúlkur öll völd á
vellinum, vörnin þéttist til muna og sóknarlega gekk allt upp. Stóran part síðari hálfleiks spilaði KA með tvo línumenn í
sókninni og spiluðu stelpurnar frábærlega úr því. Lokatölur 17-9 fyrir KA.
Síðasti leikur KA var gegn HK. Þetta var fjórði leikur KA á fimm tímum en stelpurnar sýndu engin þreytumerki og náðu
yfirhöndinni strax á fyrstu mínútu. Varnarlega var þetta langbesti leikurinn hjá stelpunum.
Sóknin hikstaði örlítið á köflum en gekk heilt yfir nokkuð vel. HK spilaði nokkuð fasta vörn en KA stúlkur létu það
ekki á sig fá og sóttu af meiri krafti fyrir vikið. Lokatölur 14-8 KA í vil.
KA stúlkur unnu því alla sína leiki og unnu þar með sinn riðil. Þetta er annað mótið í röð sem stelpurnar fá gull
fyrir sína frammistöðu og mega þær vel við una.
Leikirnir voru allir virkilega góðir hjá stelpunum. Sóknarlega var stimplunin virkilega flott og erfitt að taka einhverja eina út. Laufey Lára spilaði
alla leikina stórkostlega, bjó mikið til fyrir liðsfélaga sína ásamt því að taka af skarið þegar hún þurfti.
Þórey Lísa nýtti sér styrk sinn og kom vel á ferðinni og skoraði góð mörk. Lára og Kara voru öflugar vinstra megin, sem og
Arna sem leysti hægra hornið af stakri snilld. Þegar þær tóku sig til og fóru í gabbhreyfingar voru fáar sem áttu svör við
þeirra hröðu fótum. Marta Þórðardóttir spilaði virkilega vel sóknarlega og var sífellt að búa til færi fyrir
stelpurnar og varnarlega fór hún hreinlega á kostum. Hildur skoraði mjög mikilvægt mark á móti Fylki og stóð sig vel í öllum
leikjum.
Sunna og Anja létu finna fyrir sér í vörninni og bjuggu til ófáa marbletti á mótherjum sínum ásamt því að standa
sig með prýði í sókninni.
Markvarslan í mótinu var frábær en Lína og Eir skiptu mínútunum fallega á milli sín.
Liðið er að spila virkilega skemmtilegan bolta og hver og ein skilar til liðsins. Stelpurnar eru að spila góða vörn og leysa rétt úr henni.
Í sókninni eru þær að búa vel til fyrir hverja aðra og láta boltann vinna vel fyrir sig.
Flokkurinn hefur stækkað og styrkst á síðustu mánuðum og er stefnan sett á að á næsta móti, sem jafnframt verður
það síðasta þennan veturinn, verða tvö lið send til keppni.
Stefán Guðnason og Sindri Kristjánsson