Æfinga- og kynnisferð til Kiel

Það stendur mikið til hjá þeim félögum Sævari Árnasyni, Jóhanni Gunnari Jóhannssyni og Guðmundi Hólmari Helgasyni þessa dagana en næstkomandi mánudag halda þeir í æfinga- og kynnisferð til Þýskalands. Þar verða þeir í heimsókn hjá Alfreð Gíslasyni og meistaraliði hans Kiel fram á föstudaginn 7. ágúst.

Þeir Sævar og Jóhann Gunnar munu kynna sér þjálfun hjá Alfreð en Guðmundur mun æfa þessa daga með aðalliði Kiel þannig að þetta er sannkölluð draumaferð fyrir þá félaga. Að sögn Sævars hefur lengi verið stefnt að því að komast í svona ferð og fá að kynnast af eigin raun starfsháttum hjá þeim bestu í heiminum og þegar Alfreð var hér á ferðinni nú í júlí var endanlega afráðið að hrinda þessu í framkvæmd.

Einnig stóð til að Ásgeir Jóhann Kristinsson færi með í ferðina en hann varð fyrir því óláni að slíta krossband er hann lék með U-17 ára liði Íslands á Ólympíuleikum æskunnar nú á dögunum og missir því af ferðinni og því miður væntanlega af töluverðum hluta af næsta leiktímabili.

 
Guðmundur og Ásgeir í leik með 2. flokki Akureyrar síðastliðinn vetur.

Þeir Guðmundur og Ásgeir léku með 3. flokki KA síðasta vetur undir stjórn Jóhanns Gunnars en léku einnig með 2. flokki Akureyrar Handboltafélags og komu einnig við sögu hjá meistaraflokki félagsins. Auk þess léku þeir báðir með U-17 ára landsliði Íslands í sumar.

   
Það verða eflaust fagnaðarfundir hjá þeim Bróa, Sævari og Alfreð enda hægt að rifja ýmislegt upp.

Ekki þarf að efast um að þetta er frábært tækifæri fyrir þá félaga að fá tækifæri til að æfa og kynnast starfsháttum hjá besta félagsliði heims.  Sævar lofar okkur myndum og ferðasögunni þegar þeir koma heim aftur. 

Við óskum þeim góðrar ferðar og biðjum fyrir kveðjur til Alfreðs og fjölskyldu.