Af ferð 5. flokks KA/Þór til Reykjavíkur um síðustu helgi

Stelpurnar á eldra ári í 5. flokki kvenna fóru til Reykjavíkur um síðustu helgi. Voru þær skráðar í efstu deild þannig að ljóst þótti að allir leikir yrðu hörkuleikir. Ekki bætti úr skák að þar sem færðin var ekki sú besta var dágóð töf á leiðinni þannig að þær náðu í hús korteri fyrir fyrsta leik.

Fyrri hálfleikurinn bar öll  merki að þær voru nýkomnar úr rútunni og hver klaufamistökin ráku næstu og staðan í hálfleik 5-1 fyrir ÍR. Hálfleikurinn var notaður til að hressa þær við og komu þær mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og voru búnar að jafna eftir aðeins fjórar mínútur. Hægt og bítandi juku þær muninn og að lokum unnu þær góðan sigur 14-8.

Annar leikurinn var gegn liði HK sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar í þessum aldursflokk. KA/Þór barðist vel og spilaði virkilega sterka vörn en mistökin voru fleiri heldur en hjá liði HK og því fór sem fór. HK sigraði 12-8.  Stelpurnar sýndu það þó í þessum leik að þær eiga fullt erindi í þetta lið.
Grótta var síðan þriðji og síðasti mótherjinn þennan daginn. Fyrri hálfleikurinn var í járnum og staðan 7-7 í hálfleik. Síðari hálfleikur var síðan stórkostlegur hjá liði KA/Þórs en þær lokuðu vörninni og juku kraftinn í sókninni. Innbyrtu loks góðan sigur 14-8.
 
Eftir góðan fyrri dag fóru stelpurnar sælar í sund og endaði dagurinn á glæsilegri liðaspurningakeppni þar sem framlengja þurfti í tvígang til að fá fram sigurvegara.
Sunnudagurinn byrjaði gegn liði Fram. Leikurinn byrjaði vel, KA/Þór lék af miklum krafti og náði fljótt fjögurra marka forustu. Þá small allt í baklás. Stelpurnar hættu að horfa á markið, allt lak í gegn í vörninni og boltinn tapaðist í gríð og erg. Það var ekki fyrr en leikurinn var tapaður sem stelpurnar fóru aftur að spila eðlilegan leik og náðu að rétta af stöðuna í lokin.

Lokaleikurinn var gegn liði Fylkis. Þrátt fyrir tapið gegn Fram gátu stelpurnar náð öðru sætinu í 1. deild með því að vinna þann leik. Fylkir er með nokkuð svipað lið og KA/Þór og úr varð hin mesta skemmtun. Hart var barist og liðin skiptust á að hafa forustuna. KA/Þór leit þó út fyrir að hafa gert út um leikinn í tvígang fyrst þegar mínúta var eftir af leiknum og síðan aftur þegar tólf sekúndur voru eftir en Fylkir náði að jafna í bæði skiptin. Síðasta mark leiksins kom þegar einungis sex sekúndur voru eftir. Jafntefli því niðurstaðan og 3. sæti í 1. deild raunin. Stelpurnar mega vera mjög ánægðar með árangurinn enda stóðu þær sig virkilega vel.

Heilt yfir spiluðu stelpurnar gríðarlega vel. Vörnin var nánast alla leikina til fyrirmyndar, baráttan gríðarleg og sú næsta alltaf tilbúin að hjálpa. Sóknin gekk á köflum mjög vel. Þegar þær sóttu á og spiluðu fyrir hvor aðra réð engin vörn við þær.

Fram leikurinn var dýrmæt lexía sem þær geta lært helling af. Þegar hausinn er ekki innstilltur á verkefnið er hætt við því að illa fari líkt og gerðist í leiknum.

Nú er nauðsynlegt fyrir stelpurnar að æfa vel fram að næsta móti, enda stutt í næsta mót. Ef þær gera það verða þeim allir vegir færir.

Kv. Þjálfarar