Ágúst Elí gengur í raðir KA!

Velkominn í KA Ágúst Elí!
Velkominn í KA Ágúst Elí!

Handknattleiksdeild KA barst í dag stórkostlegur liðsstyrkur þegar landsliðsmarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson skrifaði undir hjá félaginu. Það er vægt til orða tekið að þetta sé frábær bæting við okkar flotta lið enda ættu flestir handboltaunnendur að þekkja vel til kappans.

Ágúst Elí sem skrifar undir eins og hálfs árs samning við KA hefur verið einn besti markvörður Íslands um áraraðir en hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland árið 2017 og hefur síðan leikið á þó nokkrum stórmótum, nú síðast á Heimsmeistaramótinu sem fór fram fyrr á árinu.

Ágúst Elí er 30 ára gamall og er uppalinn hjá FH þar sem hann hóf ungur að leika með meistaraflokk. Árið 2018 hélt hann utan til atvinnumennsku er hann gekk í raðir IK Sävehof í Svíþjóð og varð sænskur meistari með liðinu árið 2019. Í kjölfarið gekk hann í raðir danska stórliðsins KIF Kolding þar sem hann lék í tvö ár.

Árið 2022 skipti hann yfir í Ribe-Esbjerg í Danmörku þar sem hann hefur leikið síðan fyrir utan tveggja mánaða tímabil þar sem hann var lánaður til dönsku meistaranna í Álaborg þar sem hann fyllti skarð Niklas Landin á meðan hann var frá vegna meiðsla en Landin er af mörgum talinn besti markvörður í heimi. Á þessum tíma með Álaborg vann hann danska Super Cup auk þess að aðstoða liðið við að leggja risa í handboltanum eins og GOG og loks stórlið Veszprém í Meistaradeild Evrópu.

Ágúst rifti á dögunum samningi sínum við Ribe-Esbjerg og var því frjáls ferða sinna og er það ákaflega gaman að sjá jafn öflugan leikmann og Ágúst Elí velja að koma norður til okkar í KA.

KA liðið hefur sýnt það og sannað það sem af er vetri að það er tilbúið að berjast á toppnum auk þess sem strákarnir eru nú búnir að tryggja sér sæti í bikarúrslitahelginni.

Stemningin í kringum liðið hefur einnig verið frábær og ljóst að með komu Ágústar verður liðið enn öflugra og klárt að við ætlum okkur enn stærri hluti í vetur. Við bjóðum Ágúst Elí hjartanlega velkominn í KA!