Ályktun aðalfundar Handknattleiksdeildar KA

Í dag var haldinn aðalfundur Handknattleiksdeildar KA. Erlingur Kristjánsson rakti helstu viðburði liðins árs sérstaklega hvað varðar kvennaboltann en Sigfús Karlsson rakti gang mála hjá unglingaráði. Ljóst er að starfsemin hefur gengið býsna vel í vetur, öflugur og samhentur hópur komið til starfa og bjart framundan.

Lagðir voru fram reikningar deildarinnar fyrir árið 2008 og er fjárhagsstaðan harla góð. Það er ekki síst að þakka framlagi úr ferðajöfnunarsjóði ÍSÍ og rausnarlegum styrk Samherja.

Það er því áhyggjuefni að fyrr í vetur lýstu ráðamenn ætlunum um að skerða fyrirhuguð framlög til sjóðsins fyrir yfirstandandi ár og var  því eftirfarandi ályktun borin upp í lok fundar, hún samþykkt einróma og verður send öllum stjórnmálaöflum sem bjóða fram til komandi kosninga:

Ályktun samþykkt á aðalfundi Handknattleiksdeildar KA 16. apríl 2009

Aðalfundur Handknattleiksdeildar KA, haldinn í KA heimilinu 16. apríl 2009, samþykkir að skora á þau stjórnmálaöfl sem eru í framboði til alþingiskosninga vorið 2009 að standa við gefin loforð um ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ og standa þannig vörð um heimilin á landsbyggðinni.