Fréttir

3. flokkur karla - mæta Haukum á þriðjudaginn

Næstkomandi þriðjudag klukkan 18:00 spilar KA1 á móti Haukum í 8. liða úrslitum Íslandsmótsins. KA1 enduðu í öðru sæti í fyrstu deild og fá því Hauka sem unnu sigur í annarri deildinni. Haukar hafa hörkuliði á að skipa og til að mynda urðu þessir strákar Íslandsmeistarar síðastliðið vor í 4. flokki. Þannig að þetta verður erfiður leikur, en KA1 ætlar sér örugglega alla leið í úrslit. Þetta er svo síðasti heimaleikur liðsins á þessum vetri og viljum við því hvetja sem flesta til að mæta og styðja við bakið á strákunum.

Þrjár úr KA/Þór í U-20 ára landslið kvenna

Valið hefur verið u-20 ára landsliðs kvenna sem tekur þátt í undankeppni fyrir EM sem fram fer helgina 21.-23. maí í Rúmeníu en liðið er þar í riðli ásamt Rúmeníu, Frakklandi og Króatíu. Þrjár stelpur úr liði KA/Þór eru í hópnum, þær Arna Valgerður Erlingsdóttir, Emma Havin Sardarsdóttir og Unnur Ómarsdóttir. Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með árangurinn og óskum þeim velgengni í verkefninu.

Landsliðsmenn í heimsókn á Akureyri - myndir

Í morgun komu landsliðsmennirnir Arnór Atlason, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Sturla Ásgeirsson í heimsókn til Akureyrar. Ætlunin var að reyna að fá þá á æfingar hjá yngri flokkum en þar sem þeir þurftu sjálfir að vera mættir á æfingu í Reykjavík seinni partinn var það ekki hægt. Í staðinn fóru þeir í heimsókn í nokkra skóla hér á Akureyri og hittu unga aðdáendur.

Akureyringar í ungmennalandsliðum Íslands

Guðmundur Hólmar Helgason leikmaður 3. flokks KA hefur verið valinn í U-20 ára landslið Íslands sem tekur þátt í undankeppni Evrópumeistaramótsins nú um helgina. Ásamt Guðmundi eru tveir félagar hans í Akureyri Handboltafélagi í landsliðshópnum en það eru þeir Geir Guðmundsson og Oddur Gretarsson.

Íslandsmeistarar KA frá 92 og 93 mættust á skírdag

Á Skírdag fór fram skemmtilegur handboltaleikur í KA heimilinu. Þar mættust hóparnir tveir sem fyrst lönduðu Íslandsmeistaratitli hjá KA í handbolta árið 1992 og 1993. Þetta voru s.s. árgangar drengja fæddir 1977-1980. Leikurinn var æsispennandi en lauk með sigri eldra liðsins.

Lokaumferðin í N1 deild karla í dag

Það ræðst í kvöld hvort það verður Akureyri eða FH sem komast í 4 liða úrslit Íslandsmóts karla. Akureyri leikur við Hauka í Hafnarfirðinum og þarf nauðsynlega að sigra til að tryggja sig áfram og ekki síður til að sanna fyrir stuðningsmönnum og sjálfum sér að liðið eigi erindi í úrslitakeppnina eftir slakt gengi í síðustu fjórum leikjum.