Íslandsmeistarar KA frá 92 og 93 mættust á skírdag

Á Skírdag fór fram skemmtilegur handboltaleikur í KA heimilinu. Þar mættust hóparnir tveir sem fyrst lönduðu Íslandsmeistaratitli hjá KA í handbolta árið 1992 og 1993. Þetta voru s.s. árgangar drengja fæddir 1977-1980. Leikurinn var æsispennandi en lauk með sigri eldra liðsins.

Í liðunum voru nokkrir leikmenn sem enn eru að spila handknattleik s.s. Akureyrarleikmennirnir Hafþór Einarsson, Heimir Árnason og Jónatan Magnússon að ógleymdum Halldóri Jóhanni Sigfússyni frá Raufarhöfn sem nú spilar með Fram. Aðrir leikmenn hafa lagt mishart að sér við æfingar eftir að ferlinum lauk og aukakílóin orðin sumum til vandræða.

Að kvöldi Skírdags héldu árgangarnir síðan hóf í KA heimilinu og afhentu unglingaráði handknattleiksdeildar peningagjöf til boltakaupa. Leikmenn og þjálfari voru afar ánægðir með hvernig til tókst og eru ákveðnir í að hittast aftur að ári.

Þórir Tryggvason myndaði herlegheitin og er hægt að skoða þær hér.
Óhætt er að segja að myndirnar segi meira en nokkur orð.