Arnór Ísak í 2. sæti á Sparkassen Cup

Handbolti
Arnór Ísak í 2. sæti á Sparkassen Cup
Arnór Ísak er frábær fulltrúi KA í U-18 liðinu

Arnór Ísak Haddsson lék með U-18 ára landsliði Íslands í handbolta sem tók þátt í Sparkassen Cup í Þýskalandi. Mótið hófst föstudaginn 27. desember og lauk í dag með undanúrslitum og leikjum um sæti. Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og komust alla leiðina í úrslitaleikinn þar sem þeir mættu Þjóðverjum.

Íslenska liðið hóf mótið á öflugum 29-21 sigri á Sviss eftir að strákarnir höfðu leitt 19-10 í hálfleik. Í gær mættu strákarnir heimamönnum í Þýskalandi og eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem staðan var 11-11 gekk allt á afturfótunum í þeim síðari og 21-28 tap því staðreynd.

Strákarnir voru þó fljótir að jafna sig og unnu seinna um daginn 22-17 sigur á Ítölum eftir að staðan hafði verið 8-8 í hálfleik. Með sigrinum tryggði liðið sér sæti í undanúrslitunum sem voru leikin í morgun.

Þar mættu þeir Hvít-Rússum og var í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Strákarnir leiddu 17-12 í hálfleiknum og juku svo forskotið í þeim síðari. Að lokum vannst 32-24 sigur og sæti í úrslitaleiknum staðreynd.

Þjóðverjar reyndust andstæðingar okkar manna þar og því gott færi á að hefna fyrir tapið í gær. Leikurinn fór vægast sagt fjörlega af stað og einkenndist af miklum hraða. Mikið var skorað og var leikurinn hnífjafn en hálfleikstölur voru 18-16 fyrir heimamenn.

Sama spenna var eftir hlé en þrátt fyrir góða baráttu tókst strákunum ekki að jafna metin og þegar leið á tókst heimamönnum að bæta við forskot sitt og svo fór að Þjóðverjar unnu 35-32 sigur og eru því sigurvegarar mótsins. Flottur árangur hjá strákunum og verður áfram gaman að fylgjast með framgöngu þeirra í komandi verkefnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is